140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2011 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

572. mál
[14:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður flýgur eins og örn víða og hefur sig til flugs frá umræðu um bótaábyrgð á sjó, yfir á norðurslóðir og lendir síðan við utanverðan Eyjafjörð. Ég fagna því.

Hv. þingmaður getur ekki kvartað undan því að ég hafi ekki lagt mitt af mörkum og mitt góða ráðuneyti til að skapa atvinnu í kjördæmi hans. Rétt er að rifja upp að ekki er langt síðan að átta manns fengu störf við að þýða fyrir ráðuneytið í kjördæmi hans og nefni ég þá ekki þýðingamiðstöðina sem líka er á Akureyri.

Það er rétt að rifja það upp fyrir hv. þingmanni líka að einmitt vegna framsækni okkar og samninga í norðurslóðamálum býr hv. þingmaður við þá hamingju að búið er að slá einni nýrri gildri stoð undir miðstöð norðurslóðarannsókna á Akureyri með því að mér tókst að fá aðra þjóð til samstarfs um að setja þar upp nýja prófessorsstöðu. Við munum kynna það von bráðar, hv. þingmaður þekkir það. Það verður til mikils framdráttar, ekki bara fyrir skólann, heldur ekki síst þá nemendur sem munu af njóta, vegna þess að því munu til dæmis fylgja peningar til ferðalaga til að kynna sér þessi mál á öðrum slóðum. Ég tel að það eigi að vera hægt fyrir okkur, Norðlendinga sérstaklega, að nota það sem stökkbretti til frekari framsóknar í því máli.

Að lokum, herra forseti, þarf hv. þingmaður ekki að vera hissa á því að ég styðji Framsóknarflokkinn til góðra verka. Hv. þingmaður veit að í hjarta mínu er ávallt hlýr blettur fyrir Framsóknarflokkinn, þó ekki væri nema vegna þess sem er staðreynd að það var hönd framsóknarmanns sem dró upp stefnuskrá bæði Framsóknarflokksins hins fyrsta og Alþýðuflokksins á sínum tíma, sama höndin ritaði það.

Ég gæti svo haft (Gripið fram í.) lengri ræðu um það, herra forseti, hvernig mér finnst Framsóknarflokkurinn í dag hafa strjálast af þeim brautum sem Jónas frá Hriflu markaði 1916.