140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 76/2011 um breytingu á VI. viðauka við EES-samninginn.

583. mál
[14:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég leita hér heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011, um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn eins og hæstv. forseti gat um, en hann fjallar um félagslegt öryggi. Þá þarf jafnframt að fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:

Í fyrsta lagi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa.

Í öðru lagi reglugerðir sömu aðila nr. 987 og 988/2009 um breytingu á fyrrnefndri reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa.

Í þriðja lagi 13 ákvarðanir og tvenn tilmæli framkvæmdaráðs um samræmingu almannatryggingakerfa.

Fyrrgreindar reglugerðir, ákvarðanir og tilmæli koma í stað reglugerðarráðsins sem nú þegar er fyrir hendi númeruð 1408/71, en hún fjallar um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja. Reglugerðin kemur í stað annarrar nr. 1408/71. Markmið hennar er að einfalda reglurnar frá því sem áður var og færa til nútímahorfs.

Ég undirstrika að áfram er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að einstaklingur sem hefur öðlast rétt til tryggingabóta í einu aðildarríki ESB skuli ekki glata þeim rétti sínum við flutning til annars aðildarríkis. Reglurnar fela hins vegar alls ekki í sér samræmingu á almannatryggingalöggjöf aðildarríkjanna.

Mikilvægt nýmæli felst meðal annars í rýmkun gildissviðs reglnanna þar sem reglugerðin tekur ekki einungis til einstaklinga sem eru tryggðir í aðildarríki, og hafa verið á vinnumarkaði, heldur sömuleiðis til einstaklinga sem eru tryggðir í aðildarríki en sem hafa ekki verið á vinnumarkaði.

Með reglugerð 988/2009/EB um samræmingu almannatryggingakerfa og um að ákveða efni viðaukanna við hana, er breytt viðaukum við reglugerð EB 883/2004.

Reglugerð 987/2009, sem ég gat um hér í upphafi míns máls, kveður á um nánari framkvæmd reglugerðar EB 883/2004. Upp er sett aukið samstarf milli almannatryggingastofnana til að tryggja að þeir sem rétt eiga geti notið réttinda sinna. Þannig er meðal annars kveðið á um að skipti á upplýsingum á milli stofnana skuli fara fram með rafrænum hætti.

Í ákvörðunum og sömuleiðis tilmælum framkvæmdaráðs um samræmingu almannatryggingakerfa er svo að finna nánari verklagsreglur sem varða samstarf milli almannatryggingakerfa og tilmæli um nánari útfærslu á reglum um rétt til almannatrygginga. Allt kallar þetta vitaskuld á breytingar á fleiri en einum lagabálki. Þannig verður breytt lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og loks lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Hæstv. velferðarráðherra leggur fram frumvörp til breytinga á þeim lagabálkum sem ég taldi upp á því þingi sem nú stendur.

Herra forseti. Nú hef ég lokið við að gera grein fyrir þessari þingsályktunartillögu og legg til að þegar umræðu um hana lýkur verði henni vísað til hv. utanríkismálanefndar.