140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:26]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þingmaður erum sammála um að það er mikilvægt að efla dreifbýli landsins. Hins vegar hefur maður miklar áhyggjur af þeim fjármunum sem með þessum hætti munu renna inn í ríkissjóð, að það verði einmitt eins og hv. þingmaður lýsti því að landsbyggðarfólkið þurfi að koma betlandi til ríkissjóðs. Við höfum séð það við fjárlagagerðina undanfarin ár að menn eru í eilífu stríði við ríkisvaldið og hefur svo verið í gegnum tíðina. Þess vegna er svo mikilvægt að fá úr því skorið hvort ekki sé örugglega pólitískur vilji til þess að sú renta sem kemur af auðlindinni renni aftur til viðkomandi byggðarlaga.

Mig langar að ítreka spurningu mína til hv. þingmanns, hvort hann og aðrir flutningsmenn telji — af því að ekki er vitnað til þess í þingsályktuninni að það sé eitt af því sem kjósa eigi um — að full sátt sé um að þeir fjármunir séu eyrnamerktir byggðunum og renni beint til þeirra.

Að lokum langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að talað er um margar þjóðaratkvæðagreiðslur og um hin ólíkustu mál, af hverju hann telur mikilvægt að greiða atkvæði um það sem fram kemur í þessari tillögu, af hverju hann taldi til að mynda ekki mikilvægt á sínum tíma að greiða atkvæði um Icesave-samningana, um það hvort sótt yrði um aðild að ESB og fleira. Ég vil bara fá sýn þingmannsins á það.