140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:28]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég tel að við eigum að fara í þjóðaratkvæði með þetta er sú að við erum í undirbúningsvinnunni við smíði frumvarps. Ég tel að stjórnvöld eigi að leita til þjóðarinnar með ráðgefandi upplýsingar í slíkri vinnu, síðan geti þingið ekki skirrst undan þeirri ábyrgð sem það ber að afgreiða þau frumvörp sem við eigum sem kjörnir fulltrúar að taka afstöðu til. Ég er í öllum tilfellum á móti því að lagafrumvörp séu lögð í þjóðaratkvæði en það má sækja sér ráðgjöf og það má hlusta eftir röddum á meðan mál eru í vinnslu, það finnst mér sjálfsagt og eðlilegt eins og í þessu máli.

Svo eru líka ákveðin grundvallaratriði sem eru nú almennt viðurkennd í heiminum. Menn leggja til dæmis ekki fjárlög ríkja í þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki fjárhagslegar skuldbindingar ríkja, vegna þess að það vita allir að þá gæti jafnvel þjóðarhagsmunum verið í voða stefnt vegna þess að almenningur vill nú sjaldnast taka á sig auknar álögur. Þannig er nú það.

Ég held að enginn ágreiningur sé um það á milli mín og þingmannsins að rétta þarf hlut byggðarlaganna á Íslandi, ekki síst með breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. En eins og ég sagði áðan vil ég ekki eingöngu horfa á tekjuhlutann í því. Mér finnst ekki nóg að skattleggja greinina og auka tekjuinnstreymi í ríkissjóð af henni, mér finnst að breyta þurfi kerfinu sjálfu. Um leið og byggðirnar hafa aukið aðgang sinn að aflaheimildum og menn geta komist á sjó til að veiða sér til lífsviðurværis og færa fisk að landi til vinnslu þá erum við farin að rétta hlut byggðanna á réttum forsendum, gefa þeim kost á því að bjarga sér sjálfar í stað þess að vera í hlutverki betlikerlingar.