140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður fer að verða dálítið þreyttur á því þegar þingmenn Samfylkingarinnar koma ítrekað hér upp og líta á sjálfa sig sem eina flokkinn sem er ekki í tengslum við neina hagsmunaaðila. Allar aðgerðir í þágu skuldsettra heimila eru yfirleitt skrifaðar af hagsmunaaðilum banka og lífeyrissjóða. Það er því með ólíkindum að menn skuli eilíft skýla sér á bak við þetta.

Mér fannst koma mjög vel fram í ræðu hv. þingmanns það sem ég var akkúrat að reyna að lýsa hér áðan. Hv. þingmaður sagði að það væri enn ágreiningur um hvað ætti að fara og það væri mikilvægt að spyrja þjóðina á þessum tímapunkti út í þau atriði sem greind eru hér. Strax á eftir sagði þingmaðurinn að það væri enginn ágreiningur um þessi sjónarmið innan stjórnarflokkanna, það væri bara smávægilegur munur á sjónarmiðum og það væri ekki mikið sem bæri mönnum í milli. Þessu höfum við ekki kynnst hér, aðrir hv. þingmenn, því að það hefur verið eilífur hamagangur innan stjórnarflokkanna og milli stjórnarflokkanna. Það sáum við þegar reynt var að slíta þingi í vor þegar forseti þingsins reyndi að miðla málum, ekki milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, nei, innan stjórnarflokkanna og milli stjórnarflokkanna.

Það er mjög loðið orðalag á þessari tillögu um þingsályktun og ég átta mig hreinlega ekki á því af hverju hv. þingmaður vill fá þjóðaratkvæðagreiðslu núna fyrst það er svona lítið sem mönnum ber í milli. Af hverju er ekki best fyrir atvinnugreinina og sjávarútveginn úr því að það ber svona lítið á milli að ríkisstjórnin drífi þá fram frumvarp sem allir eru sáttir við og klári þetta mál? Það er að verða á þriðja ár sem þessi vinna er búin að taka og á meðan bíða (Forseti hringir.) þeir sem bæði starfa við þessa atvinnugrein og þeir sem (Forseti hringir.) sem reka sjávarútvegsfyrirtækin, sveitarstjórnir og aðrir, og vita ekkert hvað er handan við hornið. Þessi tillaga skýrir það ekki á nokkurn einasta hátt.