140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég kom kannski ekki nægilega vel inn á það í ræðu minni að það er mjög opið og loðið í þingsályktunartillögunni hvað á að spyrja um, m.a. „að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar þar sem bornar verði upp grundvallarspurningar, m.a. um hvort taka eigi upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi“. Hvað er nýtt fiskveiðistjórnarkerfi? Ég get sagt að sá sem hér stendur er ekki á móti því að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu, en hvenær það verður nýtt og hvenær ekki, hvað þurfi til, er óljóst. Að „setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar“ held ég að sátt sé um hér. Að „innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar“ er mjög loðið líka, hvort það er átt við að endurúthluta þessu til ákveðinna einstaklinga, allrar þjóðarinnar eða hvort átt er við að leigja þetta út. Þetta er allt saman mjög loðið og ekki til þess fallið að svara þeim grundvallarspurningum sem uppi hafa verið. Þess vegna er ég að velta því upp í máli mínu hver raunverulega væri tilgangurinn með að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál þremur árum eftir að ríkisstjórnin tók við. Öll sú vinna sem hefur verið unnin í þessu máli og meðal annars leidd af þáverandi hv. þingmanni, núverandi hæstv. ráðherra Guðbjarti Hannessyni í sáttanefnd þar sem rædd voru þau sjónarmið sem tókust þar á.

Hvort það sé mikill munur á ríki og þjóð er spurning. Alþingi og ríkisstjórn sitja í umboði þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti. Þegar talað er um að færa aflaheimildirnar að einhverju leyti frá fyrirtækjum sem hafa þær í dag til þjóðarinnar (Forseti hringir.) er mjög loðið hvað átt er við. Ég kem kannski betur að því í seinna andsvari mínu þar sem ég er búinn með tímann núna.