140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Þingmaðurinn náði reyndar ekki alveg að klára það.

Sáttaleiðin gengur út á að gerðir eru samningar við ríkið og þar með eru menn búnir að viðurkenna að ríkið eigi kvótann. Menn semja ekki við einhvern um að fá eitthvað hjá honum nema hann eigi það. Ég er ekki alveg sáttur við þá nálgun því að ég vil ekki sjá ríkisvæðingu kvótans, ég vil ekki að stjórnmálamenn séu að „víla og díla“ með það að dreifa út kvóta eins og við sjáum í þessum pottum úti um allt land. Ég vil ekki sjá að einstakir þingmenn dreifi kvótum í strandveiðar og kaupi sér þannig atkvæði. Ég vil að kvótinn fari til þjóðarinnar, íbúa landsins hreint og beint. Það er mín hugsun.

Mig langar að spyrja hv. þingmann frekar út í þessa þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Nokkuð stór hluti þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu, í þéttbýlinu svokölluðu, og í þéttbýlinu á Akureyri. Spurningin er hvort svona þjóðaratkvæðagreiðsla gæti ekki í rauninni verið spurning um hvað þéttbýlið vill.