140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[15:11]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fer háðulegum orðum um flutningsmenn þessa frumvarps og kallar okkur sjálfskipaða sérfræðinga í sjávarútvegsmálum. Hann talar eins og hann sé sérfræðingur þeirra sjálfstæðismanna í sjávarútvegsmálum og hefur látið þannig marga undanfarna mánuði, sem er athyglisvert vegna þess að ef marka má starfsferilsskrá þessa sama þingmanns hefur hann aldrei unnið innan sjávarútvegsins, hvorki til sjós né í vinnslu. Hafi hann gert það hefur honum að minnsta kosti ekki fundist það þess virði að geta um það á starfsferilsskrá sinni, það eru að minnsta kosti ekki nein merki um það á heimasíðu Alþingis.

Það er ekki eins og þetta mál sé að koma fram í fyrsta skipti, ég hef talað fyrir því áður og þetta er að minnsta kosti í annað skipti sem við tökum þessa umræðu hér. En það er kannski ekki nema von að hv. þingmaður átti sig ekki alveg á inntaki þingsályktunartillögunnar. Hann spyr og spyr og les upp úr tillögunni og kveðst ekki skilja upp eða niður, talar í hártogunum og spyr hvort það eigi bara að stöðva vinnuna núna á meðan beðið sé svars frá þjóðinni.

Að sjálfsögðu er ástæðulaust að stöðva vinnuna og auðvitað höldum við henni áfram. Framtíðarstefnan hefur verið mótuð. En það er athyglisvert að heyra þingmanninn tala eins og engu máli skipti hver kunni að vera hugur þjóðarinnar í þessu máli. Ætli það sé ekki meginástæðan fyrir andstöðu þingmannsins við þingsályktunartillöguna? Hann óttast að fá þann úrskurð svart á hvítu, fá þá staðfestingu á þeim skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar á undanförnum árum sem sýna að þjóðin vill breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, hún vill réttlátari útdeilingu (Forseti hringir.) arðsins sem kemur inn af greininni. Það er auðvitað sú niðurstaða (Forseti hringir.) sem þingmaðurinn óttast að sjá.