140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

samningsveð.

288. mál
[15:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðuna og að leggja þetta mál fram. Mér líst vel á þetta mál og held að það sé afskaplega mikilvægt að við vinnum úr því hratt og vel.

Það er margt sem mælir með þessu. Fyrst og fremst tel ég að stærsti kosturinn sé einfaldlega sá að þetta styrki stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum og ég held að það sé afskaplega mikilvægt, sérstaklega á þessum tímapunkti.

Menn hafa bent á gallana sem felast í því að erfiðara verði að fjármagna íbúðarkaup, þ.e. að þeir sem lána til íbúðarkaupa muni ekki vilja lána jafnhátt hlutfall og verið hefur. Það er mín skoðun að það sé ekki bara galli. Ég tel að vísu að við þurfum að endurskoða það fyrirkomulag sem við höfum til að aðstoða fólk við húsnæðiskaup og ég ætla mér að flytja hér mál byggt á eldgömlum hugmyndum frá því að ég var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og ég og Magnús Árni Skúlason hagfræðingur bjuggum til nokkuð sem hét húsnæðisstefna unga fólksins. Sú stefna gekk einfaldlega út á það að hjálpa fólki við að eignast í staðinn fyrir að hjálpa fólki við að skulda.

Allt það fyrirkomulag sem við erum með núna, sem hefur svo sannarlega reynst illa þegar á heildina er litið, hefur gengið út á að hvetja fólk til skuldsetningar með mjög háu lánshlutfalli og sömuleiðis með vaxtabótum. Það snýr að framtíðinni. Þetta mál snýr að mínu áliti að nútíðinni, það snýr að því að styrkja stöðu lántakenda gagnvart fjármálastofnunum. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram.