140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

samningsveð.

288. mál
[15:37]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir dálæti sjálfstæðismanna á lyklafrumvarpinu og fagna því. Hér í þinginu liggur í efnahags- og viðskiptanefnd þingsályktunartillaga frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þar sem kemur fram tillaga um þrengri rétt fólks til að skila inn lyklum en gert er ráð fyrir í mínu lyklafrumvarpi. Ég tel reyndar að við eigum að veita fólki mjög víðtækan rétt til að skila inn lyklunum í ljósi þess að hér varð algjör forsendubrestur eftir hrun.

Ég vil jafnframt geta þess að í Bandaríkjunum þar sem þessi réttur er búinn að vera frá kreppunni miklu 1930 er verið að tala um að breyta gjaldþrotalögunum enn frekar og gera það enn auðveldara fyrir fólk að komast úr skuldsetningu sem það ræður ekki við.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni hvað varðar nauðsyn þess að aðstoða fólk við að eignast húsnæði en ekki að skuldsetja sig fyrir húsnæði eins og stefnan hefur verið hér fram til þessa.

Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af því að bankarnir vilji ekki lána fólki til að kaupa fasteignir, ég hef miklu meiri áhyggjur af því að fólk, sérstaklega ungt fólk, vilji ekki kaupa fasteignir. Skortur á vilja til að eignast húsnæði og taka til þess lán mun þrýsta bönkunum til að lána meira en kannski góðu hófi gegnir.