140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

meðferð einkamála.

320. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál þarfnast ekki mikillar umræðu. Það var líka flutt á síðasta þingi og þá af hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Ég var meðflutningsmaður þá og er 1. flutningsmaður núna. Allur þingflokkur sjálfstæðismanna er á þessu máli.

Af óskiljanlegum orsökum var það ekki samþykkt þá og af óskiljanlegum ástæðum er ég fyrst núna að tala fyrir þessu máli en það er langt síðan það kom inn í þingið. Því miður og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafa stjórnvöld, ríkisstjórnin, ekki ákveðið að ganga í þetta mál. Ef það hefði verið gert væru vandamálin færri en þau eru í dag.

Við erum að fjalla núna um afleiðingarnar af dómi Hæstaréttar í tengslum við gengistryggð lán og ég held, virðulegi forseti, að hver einasti aðili sem hefur komið fyrir nefndina, og þeir eru fjölmargir, bæði fulltrúar lántakenda, eftirlitsstofnana og fjármálastofnana, hafi bent á að það verður að taka út ákveðin mál og klára þau og vera með flýtimeðferð í gengislánunum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Það er fullkomið hneyksli að við séum ekki búin að samþykkja þetta og klára þetta og ef við klárum þetta ekki hratt og vel er það fullkomið ábyrgðarleysi.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpið fari til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég trúi ekki öðru en að málið verði klárað hratt og vel. Það ætti að vera einfalt að senda það til umsagnar, því að eins og ég nefndi hefur held ég hver einasti aðili sem hefur komið fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd í tengslum við þau mál sem hér hafa komið upp, þ.e. gengislánadóminn, mælt með því að mál sem tengjast gengislánunum séu sett í flýtimeðferð og er því sjálfgert að klára þetta mál, virðulegi forseti.