140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skipun rannsóknarnefndar til að skoða starfshætti ráðuneyta og Seðlabanka Íslands.

535. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Þegar aðstæður eru eins og þær eru í dag, að enginn þingmaður er í salnum, tel ég rétt að það sé nefnt í upphafi ræðu að menn eru að tala hér fyrir nær tómum sal.

Þessi þingsályktunartillaga snýst um hvort Alþingi vilji halda áfram þeirri vegferð sem það fór í þegar það skipaði rannsóknarnefnd Alþingis til að skoða aðdraganda hrunsins, en þessi tillaga gerir ráð fyrir skipun rannsóknarnefndar til að skoða starfshætti forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og Seðlabanka Íslands.

Flutningsmenn tillögunnar eru sá er hér stendur og hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar, í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, að skipa sérstaka þriggja manna rannsóknarnefnd sem geri sjálfstæða og óháða rannsókn á starfsháttum forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis (síðar efnahags- og viðskiptaráðuneytis) og Seðlabanka Íslands. Nefndin skal kanna hvort og þá hvaða meinbugir voru á starfsháttum ráðuneytanna og Seðlabankans í aðdraganda hrunsins og hvað hefur verið gert til úrbóta. Rannsóknartíminn skal vera frá ársbyrjun 2005 til loka ársins 2011. Rannsóknin taki sérstaklega til samskipta milli ráðuneyta, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, ákvarðana sem teknar voru á tímabilinu og atburða sem tengjast falli bankanna.“

Í greinargerð með tillögunni segir svo, með leyfi forseta:

„Í ljósi umfjöllunar um forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyti í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (þskj. 1501, 705. mál 138. löggjafarþings 2009–2010) er lagt til að gerð verði rannsókn á ráðuneytunum þremur og þá sérstaklega horft til samskipta, ákvarðana og atburða sem tengjast falli bankanna. Ljóst þykir að í aðdraganda hrunsins hafi mikilvægar ákvarðanir verið teknar án umræðu í ríkisstjórn og eru dæmi um að viðkomandi fagráðherrar hafi ekki verið boðaðir á fundi um málefni sem heyrðu undir þeirra ábyrgðarsvið. Enn fremur var það ein af niðurstöðum þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að ábyrgð og eftirlit fagráðherra með sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneyti þeirra heyrðu virtist verulega ábótavant. Í ljósi framangreinds er brýnt að gerð verði rannsókn á þeim ráðuneytum sem fjallað er um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og lögð sérstök áhersla á að kanna samskipti ráðuneytanna við önnur ráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið, ákvarðanir sem teknar voru í viðkomandi ráðuneytum á tímabilinu og atburði sem tengjast falli bankanna.“

Frú forseti. Stærsti reikningurinn sem íslenska þjóðin fékk vegna hrunsins var reikningurinn frá Seðlabanka Íslands. Ekkert var þjóðinni dýrkeyptara en þau mistök sem Seðlabankinn og stjórnendur hans gerðu og ekki hefur enn, nú þremur eða nærri fjórum árum eftir hrunið, verið farið út í nákvæma rannsókn á því hvað var eiginlega í gangi í Seðlabankanum á þeim tíma. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis tekur ekki nema lítillega á atburðum í Seðlabanka Íslands, hún fjallar öllu meira um ríkisstjórnina og ráðuneytin sem komu að þessum málum en ekki heldur nægilega vel um þátt þeirra í hruninu. Það er náttúrlega löngu, löngu orðið tímabært að opna það box sem þessi mál eru í.

Í rauninni er óskiljanlegt að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn skuli ekki hafa fyrir löngu flutt þá tillögu sem hér er flutt og ástæðan fyrir því að við flytjum hana nú er einfaldlega sú að við höfum verið að bíða eftir því, sérstaklega þar sem ályktað var um það í skýrslu þingmannanefndarinnar að slík rannsókn yrði gerð. En það er svo með þennan þátt hrunsins eins og marga aðra að það er tregða hjá Alþingi og hjá ríkisstjórn að upplýsa nákvæmlega hvað fór úrskeiðis og hverjir báru ábyrgð á því sem fór úrskeiðis.

Verði tillagan samþykkt og rannsóknarnefnd skipuð mun einfaldlega koma í ljós hvaða verkþættir í þessum ráðuneytum og í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu gerðu það að verkum að þetta eftirlit allt saman brást. Það mun þá líka koma í ljós hvaða starfsfólk og stjórnendur áttu þar hlut að máli og það mun að sjálfsögðu vekja upp spurningar um hvort þeir séu hæfir til að starfa í sömu stöðum, ef þeir eru þar enn.

Það hlýtur að vera sjálfsagt mál að þessi mál verði upplýst. Ég hvet einfaldlega til þess að Alþingi gangi fram og samþykki þessa tillögu, henni verður væntanlega vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en það er ekkert stórmál að samþykkja tillöguna sem slíka. Fara þarf í einhverja vinnu við að finna þá sem ættu að sitja í rannsóknarnefndinni og það hefur oft tekið svolítinn tíma en þegar það ferli er komið af stað, eins og sýndi sig til dæmis með þær tvær rannsóknarnefndir sem eru í gangi núna, gengur sú vinna yfirleitt mjög vel. Menn hafa þá til hliðsjónar þau vönduðu og skýru vinnubrögð sem rannsóknarnefnd Alþingis starfaði samkvæmt og niðurstöðurnar verða vonandi í samræmi við það.

Að lokum, frú forseti, hvet ég þingmenn alla til að taka undir þessa tillögu, að rannsóknarnefnd verði skipuð og hún hefji störf sem fyrst og reyni að ljúka störfum sem fyrst.