140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

vextir og verðtrygging.

96. mál
[15:55]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Flutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru Lilja Mósesdóttir, Þráinn Bertelsson og Þór Saari.

1. gr. hljóðar svo:

„Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:

Verðtryggt lánsfé skal ekki bera hærri almenna vexti en 2%.“

2. gr.:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Hægt væri að standa hér í fleiri, fleiri klukkutíma og reyndar marga daga og ræða um það, forseti, hversu mikilvægt er að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku samfélagi til handa fjölskyldum og heimilum í landinu.

Eins og segir í greinargerð er þetta þannig að við útreikning vaxta af verðtryggðum lánum er skv. 4. gr. vaxtalaga miðað við að vextir skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum hjá lánastofnunum, ef hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin. Með þessu frumvarpi er hins vegar lagt til að verðtryggð lán beri aldrei hærri vexti en nemur 2%.

Rök fyrir verðtryggingu hafa meðal annars verið þau að með henni sé hægt að halda vöxtum lægri en ella vegna þess hve lítil áhætta lánveitandans er. Verðtrygging lána tryggir hagsmuni lánveitanda með þeim hætti að hann er varinn fyrir öllum sveiflum í verðlagi. Sá sem tekur verðtryggt lán er hins vegar með öllu óvarinn á tímum verðbólgu. Hækki verðlagið, hækka lánin. Á Íslandi hafa lánveitendur getað tryggt lánsfjármagnið með verðtryggingu og breytilegum vöxtum, stundum meira að segja hvoru tveggja í senn.

Við hljótum öll að viðurkenna er mikilvægt er að ná fram raunvaxtalækkun til að létta undir með skuldsettum heimilum og í þágu heimilanna í landinu er eins og ég sagði áðan brýnt að afnema vísitölubindingu lána eins fljótt og auðið er. Þar til það hefur verið gert er hér lagt til úrræði til varnar lántakendum þannig að auk verðtryggingar sem leggst ofan á höfuðstól lánanna sé lánveitanda ekki heimilt að leggja vexti umfram tiltekið hámark, eða 2%

Frumvarp í þessum anda hefur verið lagt fram áður á Alþingi. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál, enda tala ég hér fyrir tómum sal, ég vil bara segja enn og aftur hversu mikilvægt er að þingheimur, ríkisstjórn og þingheimur fari að taka alvöru konkret skref í þá átt að draga úr vægi verðtryggingar og afnema verðtryggingu í íslensku samfélagi til handa fjölskyldum og heimilum í landinu. Ég mælist til þess að þetta þingmál sem og önnur þau sem lúta að þessu afar brýna hagsmunamáli fjölskyldna Íslands séu tekin alvarlega og tekin til efnislegrar meðferðar innan viðkomandi þingnefndar.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta en mælist til þess að málið fari til nefndar.