140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

rammaáætlun.

[15:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í þinginu er þess beðið að rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða komi til þinglegrar meðferðar. Við höfum á undanförnum dögum átt orðastað við hæstv. forsætisráðherra og við höfum jafnframt haft af því spurnir í gegnum fjölmiðla að stjórnarflokkarnir séu að gera með sér einhvers konar samkomulag um að gera breytingar á tillögunni eins og hún kom til ríkisstjórnar. Þetta kallar á athugasemdir, ekki síst vegna þess að grunnhugsunin að baki rammaáætluninni var sú að taka málið fyrst og fremst upp á faglegum forsendum og vinna til langs tíma í senn, forða okkur frá hinum pólitísku átökum sem kynnu að rísa um nýtingu einstakra virkjanakosta. Þannig er mál með vexti í dag að þeir virkjanakostir sem sagðir eru á leið úr nýtingarflokki í biðflokk hafa einmitt á undanförnum árum verið pólitískt bitbein og þar nefni ég sérstaklega neðri hluta Þjórsár.

Ég vil bera það undir hæstv. umhverfisráðherra hvort þau vinnubrögð sem við verðum vitni að og hafa orðið til þess að tafir hafa orðið á því að áætlunin komi inn til þingsins séu ekki fyrst og fremst byggð á pólitískri stefnumörkun hennar eigin flokks, þ.e. Vinstri grænna, um að nýta ekki þá virkjanakosti sem er að finna í neðri hluta Þjórsár og hvort við erum ekki, um leið og slíkt skref verður tekið, búin að grafa undan þeirri langtímahugsun sem ávallt hefur legið að baki rammaáætlun um vernd og nýtingu. Það er algjört grundvallaratriði að við náum í einhverjum málum, eins og þessum mikilvæga málaflokki, að hefja okkur upp úr pólitískum deilumálum og setja sameiginlega einhvern langtímaramma fyrir stóra málaflokka eins og þennan. Mér sýnist að ríkisstjórnin sé, með þessu baktjaldamakki sínu þar sem hún heldur (Forseti hringir.) málinu frá þinginu, á góðri leið með að grafa undan þessu grundvallaratriði.