140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

rammaáætlun.

[15:08]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er auðvitað mikilvægt að við ræðum þetta á vettvangi þingsins en það gætir örlítils misskilnings í framsetningu fyrirspurnarinnar, kannski fyrst og fremst þess að hér er um það að ræða að fara að lögum á allan hátt. Í lögunum kemur fram að iðnaðarráðherra skuli í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra leggja eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun.

Þessi niðurstaða verkefnastjórnarinnar lá sem sagt fyrir í júlí sl. og á grundvelli þeirrar tillögu, þar sem ekki var flokkað heldur var ákveðin röðun, voru útbúin drög að þingsályktunartillögu og hún síðan sett í umsagnarferli. Vinnu gagnvart umsagnarferlinu lauk 19. ágúst. Að því loknu var farið í gegnum þær 225 umsagnir sem bárust og lagt mat á það hvort þar væri að finna einhverjar nýjar upplýsingar sem taka bæri lögum samkvæmt tillit til við endanlegan frágang þingsályktunartillögunnar. Þarna er að öllu leyti um að ræða efnislega nálgun að verkefninu á faglegum og fræðilegum grunni. Þetta ferli er allt í samræmi við ákvæði laga um rammaáætlun og þá aðferðafræði sem þar er lagt upp með. Þessi vinnubrögð eru algjörlega í samræmi við Árósasamninginn sem innleiddur var í íslensk lög um síðustu áramót sem kveður á um aukna aðkomu almennings við ákvarðanatöku í umhverfismálum. Okkur ber að fara að því. Ef við óskuðum eftir umsögnum almennings, 225 umsögnum, og virtum þær allar að vettugi færum við ekki að lögum.