140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

samstarf við Kanada um gjaldmiðilsmál.

[15:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það kemur mér á óvart að heyra að sendiherra Kanada hér á landi hafi með formlegum hætti, þá væntanlega fyrir hönd sinna stjórnvalda, haft samband við seðlabankann í Kanada til að inna eftir því hvort forsendur væru af þeirra hálfu til að koma að einhvers konar samstarfi við Íslendinga. Ef um er að ræða formlegt tvíhliða samstarf hlýtur það að gerast með þeim hætti að stjórnvöld hér á landi óski eftir því. Það er reyndar tilefni spurningar hv. þingmanns.

Svarið við henni er alveg ljóst af minni hálfu, það er neitandi. Ég tel ekki tilefni til þess á þessari stundu að við ákveðum að senda formlega sendinefnd til Kanada til að ræða við kanadísk stjórnvöld um tvíhliða samstarf á þessu sviði. Seðlabankinn er að móta þessa stefnu og það er von á skýrslu frá honum á næstu vikum sem væntanlega varpar ljósi á þessa umræðu og hvaða kostir eru (Gripið fram í.) fyrir Íslendinga.

Hins vegar hef ég sagt alveg hreint út að ég tek fagnandi þeirri umræðu sem forsvarsmenn þessara hugmynda hafa komið fram með. Eins og haft er eftir mér í einum fjölmiðli í dag finnst mér sú umræða hafa verið öfgalaus af þeirra hálfu. Það sem ég fagna í henni, og sem mér finnst auðvitað vaka á bak við hjá hv. þingmanni, er að við erum sammála um það, ég og þeir ágætu herramenn sem hafa varpað fram þessari hugmynd, að krónan er ekki vænlegur dráttarklár (Gripið fram í.) fyrir Íslendinga í framtíðinni. Þannig hef ég skilið þá ágætu menn sem hafa lagt þetta fram. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Meðal annars tel ég að á heimasíðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þar sem hann hefur birt fyrirlestur sem að minnsta kosti annar þessara manna hefur flutt, sé að finna … Ég get þá ekki skilið þetta öðruvísi en svo að hv. þm. Illugi Gunnarsson sé mér sammála um að krónan sé í þannig stöðu núna að það sé nauðsynlegt að reyna að finna einhvern valkost við hana. [Kliður í þingsal.]