140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

samstarf við Kanada um gjaldmiðilsmál.

[15:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil fyrst taka fram að ég er þeirrar skoðunar að með breyttum áherslum í stjórn peningamála sé góður möguleiki fyrir okkur Íslendinga til að búa við krónuna. Ég vil nota þetta tækifæri og fordæma, frú forseti, þau ummæli sem hæstv. forsætisráðherra viðhafði um stöðu íslensku krónunnar þar sem sagt var fullum fetum að þetta væri ónýtur gjaldmiðill. Það er ekki við hæfi að viðhafa slík ummæli.

Ég lít svo á að það sé skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að kanna þennan möguleika, sjá hvort hann er á borðinu. Í því felst ekkert annað en að skoða hvort það sé möguleiki að fara í slíkt samstarf. Ég tel einnar messu virði að gera slíkt vegna þess að fram undan eru einmitt stórar ákvarðanir og þegar við vegum og metum þá möguleika er nauðsynlegt að meðal annars sé fullkannaður sá möguleiki hvort hægt sé að fara í tvíhliða samstarf við annað ríki eins og til dæmis Kanada, eða einhver önnur ríki sem gætu verið hentug fyrir okkur. Það er sjálfsagt að skoða það mál (Forseti hringir.) og menn mega ekki ýta slíkum möguleikum frá sér og segja um leið: Heyrðu, það gengur ekki að vera áfram með íslensku krónuna.

Í því er fólgin ákveðin þversögn.