140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

nýtt hátæknisjúkrahús.

[15:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir að við þurfum að taka þessa ákvörðun fyrir lok þingsins í vor og það er því mjög stuttur tími til stefnu. Ég vil benda á að í skýrslunni, í rauninni einu skýrslunni sem liggur fyrir um þessa hagræðingu sem á að nást, voru aðeins settir fram þrír valkostir. Í fyrsta lagi að gera ekki neitt, sem er algjörlega út úr kortinu. Í öðru lagi að fara í það verkefni sem nú liggur fyrir upp á 61 milljarð. Í þriðja lagi að byrja upp á nýtt og byggja allt frá grunni, sem blasir við að er líka út úr kortinu.

Svo er einn þáttur líka og þeir staðfestu það á fundinum, þeir fulltrúar sem komu á þann ágæta fund, að lega flugvallarins hefði ekki verið tekin inn í þegar endanleg staðsetning á Landspítalanum var ákveðin. Það er gríðarlega stór og mikill þáttur í því hvort Landspítalinn eigi að vera þar sem hann er vegna þess að við erum búin að fara í gegnum gríðarlegar breytingar á heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) sem þýða aukna flutninga frá landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið.