140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[15:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Forseti. Ég skal gera mitt besta til að svara þessum spurningum eins og tíminn frekast leyfir en hann er ekki langur þegar spurningarnar eru átta talsins.

Í fyrsta lagi er spurt: Af hverju voru ráðuneyti og eftirlitsstofnanir ekki undirbúnar undir dóm Hæstaréttar? Ég tel að sú spurning sé bæði órökstudd og í raun röng. Bæði ráðuneyti og eftirlitsstofnanir voru sér mjög vel meðvituð um að Hæstiréttur var með til umfjöllunar allmörg mál þar sem ágreiningur var meðal annars um vaxtareikning gengistryggðra lána sem dæmd höfðu verið ólögleg. Hins vegar voru mjög margir óvissuþættir samfara því að meta hvernig búast ætti við væntanlegum dómi í þessum efnum og var líka hægt að gera meira en það sem gert var, (Gripið fram í.) þ.e. að bíða eftir því að dómurinn kæmi og í ljós kæmi hvernig hann yrði og hvort fordæmisgildi hans yrði skýrt, hvort það yrði víðtækt eða þröngt, því að það er það sem ræður mati á niðurstöðunni. Það held ég að allir hljóti að sjá.

Eftirlitsstofnanirnar fylgjast að sjálfsögðu reglubundið með fjármálum fyrirtækjanna. Mikið af gögnum lá fyrir vegna fyrri umfjöllunar um gjaldeyrislán þannig að auðvelt var að fara í þann gagnagrunn. Á því er nú byggt þegar verið er að greina nákvæmlega hver áhrifin verða að því marki sem liggur enn fyrir eftir þennan dóm vegna þess að enn eru óvissuþættir uppi.

Þá er önnur spurningin: Hvaða fordæmisgildi er talið að dómurinn hafi? Þar er mörgum spurningum enn ósvarað. Lögmannsstofan Lex vann álit fyrir Samtök fjármálafyrirtækja eins og kunnugt er og að þeirra mati geta fjármálafyrirtæki ekki krafist mismunar á óverðtryggðum seðlabankavöxtum og samningsvöxtum fyrir tímabil þar sem fullnaðarkvittun eða ígildi hennar liggur fyrir. Það er í raun það eina sem er skýrt, enda eru aðstæður sambærilegar því sem lýst er í dómnum. Dómurinn hefur þar af leiðandi ekki fordæmisgildi varðandi tilvik þar sem lántaki hefur ekki yfir fullnaðarkvittun að ráða og óvíst er hvaða fordæmisgildi hann hefur eftir tegundum lánasamninga, til dæmis gagnvart lögaðilum. Þar þurfa væntanlega frekari greiningar og/eða dómsúrskurðir að ganga.

Varðandi flýtimeðferðir í dómskerfinu er að sjálfsögðu áhugi allra aðila sá að flýta því eins og hægt er. Eigi að gera breytingar á lögum þarf auðvitað að huga að því að sú flýtimeðferð verður þá að gagnast þeim völdu málum sem menn eru sammála um að fái flýtimeðferð og skýri málið. En það þýðir ekki að setja lög sem gefa öllum gjaldeyristengdum lánum sem eru um eða yfir 100 hjá dómstólunum sams konar flýtimeðferð því að þá mundi myndast mikil stífla. Eftir stendur að það verður hvort sem er að velja úr þau mál sem best eru til þess fallin að ganga áfram og geta boðið upp á skýra niðurstöðu. Samkeppniseftirlitið hefur nú með áliti sínu frá 9. mars heimilað fjármálafyrirtækjunum tiltekið samráð um að vinna úr dómnum og greina hann. Þeim er einnig heimilt að eiga samstarf um val á málum og málsástæðum sem nauðsynlegt er að láta reyna á fyrir dómi. Sú heimild Samkeppniseftirlitsins á því að leiða til þess að hægt verði að hraða mjög úrlausn nauðsynlegra mála og áður hefur tekist gott samstarf milli málsaðila og dómstólanna að flýta slíkum málum.

Hvort lagt hafi verið mat á hversu margir hafa misst eignir sínar sem undir þennan dóm falla þá er slíkt mat að sjálfsögðu mjög erfitt, ég tala ekki um á meðal enn er mikil óvissa um raunverulegt fordæmisgildi dómsins. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu sem aflað hefur gagna frá sýslumönnum þá hafa nauðungarsölur verið stöðvaðar. Gerðarþolar hafa að sjálfsögðu rétt til að mótmæla en í einhverjum tilvikum hefur sýslumaðurinn í Reykjavík sjálfur stöðvað nauðungarsölur í slíkum málum án þess að mótmælt væri af hálfu gerðarþola. Aftur kemur álit Samkeppniseftirlitsins við sögu því að þar er þeim eindregnu tilmælum beint til fjármálafyrirtækjanna að þau fresti fullnustuaðgerðum á meðan þetta ástand varir.

Varðandi tilmæli frá Seðlabanka eða Fjármálaeftirlitinu liggja fyrir tilmæli Fjármálaeftirlitsins sem send voru út 1. mars. Þar var komið inn á þessa sömu þætti. Fjármálafyrirtækið er minnt á ábyrgð sína í þessum efnum og hvatt til að fresta öllum aðfarargerðum o.s.frv.

Hvað leggur ráðherra til að fólk geri í þessari stöðu, sem er með gengisbundin lán? Almennt held ég að reynslan sýni að hyggilegast sé að menn reyni að greiða af lánum sínum enda liggur sú niðurstaða Hæstaréttar fyrir að þau skuli bera vexti samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nema í þeim undantekningartilvikum sem dómurinn hefur þegar fjallað um.

Hvers vegna voru engir fyrirvarar í samningum gömlu og nýju bankanna hvað varðar ólögleg lán? Um það er rækilega fjallað í skýrslu sem dreift var á Alþingi í apríl 2011. Þar er meðal annars komið inn á það að slík lán voru færð niður um meira en helming þegar þau færðust milli gömlu og nýju bankanna. Það var engin leið að taka tillit til mögulegrar lagalegrar óvissu sem upp kom umræða um í þann mund sem verið var að ganga frá samningum um gömlu og nýju bankana. Auk þess liggur það fyrir að sú aðferð sem valin var í því uppgjöri tekur í reynd á málum af þessu tagi, annaðhvort með uppgjörsbréfum sem ráðast af endanlegu verðmæti eignasafnsins, samanber Landsbankann, eða þá í gegnum hina leiðina sem kröfuhafar völdu í tilviki Arion banka og Íslandsbanka, að vera eigendur bankanna og bera þá eigendaáhættuna ef eignasafnið er verðminna en ella. Ég tel að samningarnir um gömlu og nýju bankana (Forseti hringir.) hafi fyllilega staðist þá prófraun sem þetta mál og önnur hafa falið í sér.

Varðandi kostnaðinn eru svör á grundvelli upplýsinga sem Fjármálaeftirlitið er að afla væntanleg um miðjan þennan mánuð.