140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[15:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir þau svör sem hann veitti við umræðuna og þá vinnu sem ráðuneytið hefur lagt í að leysa þá erfiðu stöðu sem upp hefur komið í kjölfar síðari dóms Hæstaréttar um hin ólögmætu gengistryggðu lán.

Það er grundvallaratriði um hin ólögmætu gengistryggðu lán að bankar og aðrar fjármálastofnanir gæti hófs þegar kemur að innheimtum og ekki síst innheimtuaðgerðum á þessum lánum. Við í efnahags- og viðskiptanefnd höfum átt fundi með Fjármálaeftirlitinu sem sendi út tilmæli til fjármálastofnana um þetta efni í framhaldinu. Við höfum sömuleiðis fundað með öllum helstu fjármálastofnunum til að tryggja að þær fari að þeim tilmælum sem Fjármálaeftirlitið hefur gefið út í þessu efni og það liggur fyrir af þeirra hálfu að ekki eru hafnar nýjar vanefndaaðgerðir gagnvart viðskiptavinum, þ.e. ekki er farið í vörslusviptingar eða uppboðsaðgerðir eða aðra slíka íþyngjandi hluti.

En eftir stendur það álitamál fyrir það fólk sem fékk senda greiðsluseðla nú um mánaðamótin hvort það eigi að greiða af gengislánum sínum eða ekki. Fordæmið í Hæstarétti á klárlega við um íbúðalán. Þau eru eðli málsins samkvæmt til langs tíma og skuldarar eru alla jafnan í góðri aðstöðu til að skuldajafna við lánardrottininn hafi þeir ofgreitt og eiga þess vegna ekki að vera í neinni hættu þó að þeir standi skil á afborgunum núna.

Öðru máli kann að gegna um þá sem eiga tiltölulega fáa gjalddaga eftir af samningum sínum. Þeir þurfa þá að íhuga vel hvort þeir vilji greiða við þetta óvissuástand en ástæða er til að undirstrika að viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki (Forseti hringir.) eru í góðum færum til að mæta þeim áhrifum sem dómurinn hefur á efnahag þeirra enda eiginfjárstaða þeirra gríðarlega sterk.