140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[15:57]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þetta er hið mesta vandræðamál og við stöndum enn einu sinni frammi fyrir því að stofnanir ríkisins og ríkisvaldið sjálft var óviðbúið og gat ekki brugðist við. Það er ekki í fyrsta skipti síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum. Það var ákvörðun stjórnvalda á sínum tíma að láta öll mál ráðast fyrir dómstólum. Það var harðlega gagnrýnt vegna þess að menn vissu nákvæmlega til hvers það mundi leiða. Fyrir örfáum árum var lögum um gjafsókn breytt til muna sem gerði það miklu erfiðara en áður fyrir fólk að sækja mál sín og leita réttar síns fyrir dómstólnum. Þeim lögum hefur ekki verið breytt aftur til hins betra þannig að þeir einu sem fá leiðréttingu mála sinna eru þeir sem eiga peninga til að ráða sér lögfræðinga og kosta miklu til.

Mig langar að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra: Hvað á að gera vegna þeirra hundraða eða þúsunda mála þar sem búið er að hirða eigur fólks á forsendum lána sem voru ólögleg? Hvernig á að leysa úr því? Ætla stjórnvöld bara að sitja þar með hendur í skauti? Þessi stefna er afleiðing algers afskiptaleysis ríkisstjórnarinnar og er hægt að vísa allri ábyrgð á hendur henni. En það er dapurlegt að þurfa að ræða þessi mál nú þremur árum eftir hrun og við verðum enn að ræða þau næstu þrjú árin ef ekki verður stefnubreyting hjá hinu opinbera. Það var fyrirsjáanlegt og það var margoft bent á að þetta yrðu afleiðingarnar af því að fara strax í almennar aðgerðir, en meðvirkni stjórnvalda með fjármálafyrirtækjunum á þeim tíma var og er enn í dag slík að ekkert er gert.

Stefna stjórnvalda í þessum málum hefur verið gegn hagsmunum almennings og við verðum að hafa það í huga þegar líður að kosningaári, á næsta ári, að þessi ríkisstjórn hefur algerlega brugðist þegar kemur að hagsmunum heimilanna hvað varðar lausn á skuldavanda þeirra í kjölfar hrunsins.