140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[16:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum viðbrögð við dómi Hæstaréttar frá 15. febrúar sl. um gengislán, en allt það samráðsferli sem verið hefur í gangi frá því dómurinn féll á milli stjórnvalda, fjármálafyrirtækja, umboðsmanns skuldara og fleiri aðila hefur fyrst og fremst miðað að því að sameiginleg niðurstaða náist um endurútreikning þeirra lána sem þarna eiga í hlut og fá jafnframt úr því skorið sem fyrst hvaða lán falli undir dóminn og sameinast um lausn milli lántakenda og fjármálafyrirtækja. Það sem gert hefur verið strax er að innheimtumál hafa verið sett í bið og vörslusviptingar hafa verið stöðvaðar. Þar sem dómurinn svarar ekki mörgum álitaefnum er mjög brýnt að hægt sé að velja fordæmisgefandi mál til flýtimeðferðar. Til skoðunar er hjá innanríkisráðuneytinu framlenging á fresti til endurupptöku mála og hvort ríkið komið að því að greiða málskostnað við flýtimeðferð.

Nú liggur fyrir að Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að fjármálastofnanir með aðkomu umboðsmanns skuldara og fulltrúa neytenda geta samræmt úrvinnslu og endurútreikning lána sem gengisdómurinn nær til og val á þeim málum sem best væru til þess fallin að eyða réttaróvissu milli lántakenda og lánastofnana. Óljóst er hvenær viðmiðunardagsetning er gagnvart vöxtum en fjármálastofnanir hafa verið að reikna út lánin eftir fjórum sviðsmyndum að tilmælum FME þar sem reikniaðferðin var ekki í niðurstöðu dómsins og má reikna með því að þeir útreikningar liggi fyrir um 15. mars.

Nú þarf að liggja fyrir hvort setja þurfi lög um flýtimeðferð mála til að hægt verði að fá sem fyrst niðurstöðu í þau fordæmisgefandi mál sem aðilar yrðu sammála um að sameinast um fyrir dómi svo að lántakendur fái sem fyrst að vita hvaða leiðréttingu þeir mega eiga von á á lánum sínum í framhaldinu.