140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[16:08]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Dómur Hæstaréttar 15. febrúar sl. er mikilvægur áfangasigur fyrir neytendur í landinu. Hann styrkir stöðu neytenda í samningum við fjármálastofnanir með því að staðfesta að þeir sem hafa staðið í skilum með afborganir af gengistryggðum lánum sínum og fengið fullnaðarkvittanir til marks um það verði ekki krafðir afturvirkt um viðbótargreiðslur vegna þessara sömu afborgana.

Það er ástæða til að fagna sérstaklega úrskurði Samkeppniseftirlitsins frá því síðastliðinn föstudag sem heimilar afmarkað samstarf fjármálafyrirtækjanna en með þeim skýru skilyrðum að kveðið er á um að umboðsmaður skuldara, Neytendastofa og talsmaður neytenda skuli eiga aðild að samráði þeirra. Það skiptir öllu máli ef þessi vinna á að skila einhverjum árangri að sjónarmið neytenda séu að minnsta kosti jafnsett hagsmunum fjármálafyrirtækja við úrlausn þessara mála. Verkefni samráðsins er meðal annars að finna aðferðir við endurútreikning umræddra lána, greina álitaefni sem nauðsynlegt er að láta reyna á fyrir dómi og velja prófmál á grundvelli þeirra.

Það er afar brýnt að við á Alþingi drögum þann skýra lærdóm af dómi Hæstaréttar að hlutverk okkar til skemmri tíma er ekki síst að auðvelda neytendum að verja og sækja rétt sinn samhliða því að þrýsta á um að svo fljótt sem verða má verði leyst úr þeim álitaefnum sem eftir standa um fordæmisgildi dómsins og réttarstöðu neytenda með gengistryggð lán. Í efnahags- og viðskiptanefnd erum við þannig að skoða frumvörp sem tengjast flýtimeðferð prófmála er tengjast gengistryggðum lánum, frumvarp um lengingu málshöfðunarfrests í þágu neytenda sem hafa misst eignir á grundvelli ólögmætra krafna, gjafsókn í prófmálum er til skoðunar og fleira.

Ég tel raunhæft og við eigum að stefna að því að ná niðurstöðu um framlagningu þeirra þingmála í þessari viku og þau fái í kjölfarið algjöran forgang í meðferð þingsins.

Ég tel sömuleiðis að í efnahags- og viðskiptanefnd sé að skapast ágætur grundvöllur fyrir þverpólitískri samstöðu um leiðir til að styrkja stöðu neytenda í úrlausn skuldamálanna. Það er góðs viti því að ef við viljum ná raunverulegri sátt um skuldamálin í samfélaginu gerist það best með breiðri aðkomu (Forseti hringir.) allra flokka hér á þinginu.