140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

samskipti lækna og framleiðenda lyfja og lækningatækja.

433. mál
[16:43]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur að auðvitað má þessi umræða ekki gefa þá mynd að við treystum ekki heilbrigðisstarfsmönnum til að gæta hagsmuna sjúklinga. Heilt yfir er óhætt að fullyrða að menn hafa það að leiðarljósi og gæta hagsmuna sjúklinganna í hvívetna.

Það breytir ekki því að einmitt til að hindra grun um slíkt eða að eitthvað slíkt geti komið upp þurfa reglurnar að vera skýrar og við þurfum að sammælast um hvernig eigi að haga eftirliti og fylgjast með starfseminni og gæðum hennar. Við megum ekki gleyma því að jafnvel þó að kostnaðarþátttaka sé engin í einhverjum ákveðnum aðgerðum getur það breyst. Við höfum líka séð nýleg tilfelli erlendis frá, meðal annars um gallaða mjaðmaliði og það er afar óeðlilegt ef ekki er til nein skráning á því hvað er verið að flytja inn.

Þarna er verið að bæta úr og Lyfjastofnun vinnur einmitt að því að tryggja að öll tæki séu skráð og það sé á hreinu hvað flutt er inn og í hversu miklu umfangi það er notað. Það er forsenda þess að geta gripið inn í ef eitthvað bjátar á eða ef eitthvað kemur upp. Eins og gerðist varðandi PIP-brjóstapúðana þá gat enginn séð það fyrir að þar væri um að ræða nánast glæpsamlegt athæfi þar sem varan var bókstaflega fölsuð enda sætir viðkomandi framleiðandi fangelsisvist í augnablikinu vegna þeirrar sviksemi.

Þessi vinna er í fullum gangi og ég treysti á að Alþingi og hv. velferðarnefnd styðji við bakið á okkur þegar við setjum fram regluverk í kringum þetta í framhaldi af þeirri vinnu sem sérstakur starfshópur vinnur að í þessu máli.