140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

kynheilbrigði ungs fólks.

451. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra kærlega fyrir svörin og hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir það sem hún benti hér á. Ég tek undir það sem þingmaðurinn sagði um mikilvægi þess að styðja vel við jafningjafræðsluna.

Ég held hins vegar að það sé ýmislegt sem við sem löggjafarvald þurfum að bæta úr og hæstv. ráðherra sem fulltrúi framkvæmdarvaldsins þurfi að huga að. Eins og ég kom að í framsögu minni um málið hafa ítrekað komið fram tillögur til þingsályktana um það hvernig við ættum að taka á þessum málum, um að við ættum að tryggja fleiri unglingamóttökur sem unga fólkið getur sótt til.

Ég vil líka nefna sérstaklega, og það er kannski ein helsta ástæðan fyrir því að ég hef reynt að vekja athygli á þessu máli, að í síðustu kosningabaráttu höfðu ungir framsóknarmenn sem eitt af sínum megináherslumálum að lækka virðisauka á smokkum og bentu á þær upplýsingar sem koma síðan fram í þessari skýrslu um hvað notkun á smokkum er lítil hér miðað við samanburðarlöndin. Þess vegna erum við með svo háa tíðni af kynsjúkdómum. Tíðni barneigna virðist líka miklu hærri hér en annars staðar á Norðurlöndunum. Þess vegna lagði ég fram áðurnefnt frumvarp um að lækka virðisaukann á smokkum.

Eitt af því sem hæstv. velferðarráðherra þyrfti líka að taka upp við hæstv. menntamálaráðherra varðar það hvort ekki sé nauðsynlegt að setja ákvæði í lög um framhaldsskóla um að það eigi að vera heilsuvernd í framhaldsskólum, nánast sama ákvæði og núna er í grunnskólalögunum. Eigum við ekki að gera sömu (Forseti hringir.) kröfur til okkar og við gerum til sveitarfélaganna um heilsu barna okkar?