140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

Hof á Akureyri og fjárframlög úr ríkissjóði.

425. mál
[17:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem er á þennan veg:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Hof á Akureyri fái sams konar og hlutfallslega jafnmikil fjárframlög úr ríkissjóði og Harpa í Reykjavík?“

Aðdraganda þess að ríkið kom að byggingu menningarhússins Hofs á Akureyri má rekja allt aftur til ársins 1999 þegar þáverandi ríkisstjórn Íslands ákvað að veita stofnstyrki til uppbyggingar menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta aðstöðu til menningar- og listastarfsemi og efla um leið þá starfsemi. Fjórum árum síðar ákvað ríkisstjórnin að veita 1 milljarð kr. til byggingar menningarhúss á Akureyri og í Vestmannaeyjum, og í apríl 2003 undirrituðu Tómas Ingi Olrich, þáverandi menntamálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, þáverandi bæjarstjóri á Akureyri, samkomulag um byggingu menningarhúss á Akureyri. Miðað var við að styrkurinn yrði föst fjárhæð en þó aldrei hærri en 60% af byggingarkostnaði og í tilviki menningarhússins Hofs átti styrkurinn að nema að hámarki 720 millj. kr. þar sem upphaflega áætlunin miðaði við að byggt yrði 3.500 fermetra hús og heildarkostnaður við verkið yrði ekki meiri en 1.200 millj. kr. miðað við verðlag í apríl 2003. Á síðari stigum hönnunar var svo ákveðið að bæta við starfsemi tónlistarskóla í húsið og stækka það verulega en sýnt þótti að miklir möguleikar væru á samnýtingu á rými auk þess sem slík starfsemi mundi glæða húsið meira lífi. Húsið var því stækkað um samtals 1.200 fermetra þannig að við hönnun hússins árið 2005 var byggingin komin í 4.700 fermetra. Eftir að framkvæmdir við bygginguna hófust kom fram talsvert jarðsig á byggingarlóðinni og var í kjölfarið ákveðið að setja kjallara undir allt húsið auk þess sem aðrar breytingar á hönnunarferli stækkuðu húsið enn frekar og var frekari starfsemi bætt inn í húsið.

Forsendur verkefnisins breyttust því mikið frá því sem upphaflega var gengið út frá en brúttóstærð hússins hefur farið úr 3.500 fermetrum í 7.413 fermetra eða rúmlega tvöfaldast. Kostnaðurinn fór hins vegar úr áætluðum 1.900 millj. kr. miðað við verðlag 2010 í 3.600 millj. kr. eða tæp 90%. Ríkissjóður stóð við sinn hluta samkomulagsins og greiddi umsamdar 720 millj. kr. auk 240 millj. kr. verðbóta eða samtals 960 millj. kr.

Menningarhús hafa verið byggð víða á landsbyggðinni og almennt hefur ríkið lagt til 60% af byggingarkostnaði þeirra en þó með ákveðnu hámarki. Hlutdeild ríkisins í Hofi er hins vegar tæp 27% sem rekja má til þeirra breytinga í byggingarmagni sem ég rakti áðan og ekki stóð til að ríkið tæki þátt í.

Hvað varðar tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu voru forsendur þar aðrar þar sem samningur ríkisins og Reykjavíkurborgar kvað á um fasta kostnaðarskiptingu vegna hlutdeildar þeirra í verkinu. Hlutdeild ríkisins nam 54% og Reykjavíkurborgar 46%. Heildarbyggingarkostnaður Hörpu nam 27 milljörðum kr., þar af voru 10 milljarðar kr. afskrifaðir og því nam sá kostnaður sem samningsaðilar deildu með sér 17 milljörðum kr. og hlutur ríkisins var eins og áður sagði 54%, af þeirri upphæð er einungis 34% af heildarbyggingarkostnaði hússins.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið mismunandi forsendur fyrir aðkomu ríkisins að byggingu Hofs á Akureyri og Hörpu í Reykjavík og ég geri hvorki ráð fyrir að ég muni beita mér fyrir því að ríkið leggi aukið fé til Hofs né Hörpu.