140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

Hof á Akureyri og fjárframlög úr ríkissjóði.

425. mál
[17:09]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að taka þetta mál upp. Það snýst um byggðajöfnuð, hvort landsmenn hafi jafnan aðgang að ríkisstyrktri menningu.

Það á að ríkisstyrkja menningu ella mun hún ekki geta sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Ríkið ver núna um 4 milljörðum til menningarhúsa í Reykjavík en þegar kemur að tveimur menningarsamningum úti á landi nemur upphæðin um 300 milljónum. Þarna er töluverður munur á svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Ég tel mjög mikilsvert og höfða þar til jafnaðarmannsins, hæstv. fjármálaráðherra, að komið verði til móts við þau ríkisstyrktu atvinnuleikhús og atvinnuhljómsveitir sem eru Leikfélag Akureyrar annars vegar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hins vegar á sama hátt og komið er til móts við Íslensku óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands (Forseti hringir.) í þessu efni. Þar eiga menn að sitja við sama borð þegar kemur að ríkisstyrkjum.