140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

Hof á Akureyri og fjárframlög úr ríkissjóði.

425. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu. Eitt vil ég segja í upphafi: Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að forsendur hafi verið mismunandi þegar lagt var af stað með byggingu þessara húsa, en eðli þeirra er svipað og ég er viss um að enginn mælir á móti því að mikilvægi menningarhússins Hofs á Akureyri sé minna en Hörpu. Miklir fjármunir eru lagðir í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku óperuna. Þetta er styrkt í Hörpu og það er það sem verið er að tala um og það sem Akureyrarbær fer fram á.

Ríkið ætlar sér næstu 35 ár að eyða 400 milljónum, verðtryggðum, á ári í Hörpu í Reykjavík. Þetta eru gríðarlega miklir fjármunir og ég trúi því ekki að óreyndu að núverandi ríkisstjórn ætli að láta menningarstarfsemi á landsbyggðinni sitja á hakanum. Það er ekki verið að fara fram á mikið. Það er alveg rétt að forsendurnar voru aðrar en þær eru það í rauninni ekki í dag. Þetta eru sambærileg hús og það á styrkja starfsemi þeirra á sama hátt.

Ég tek undir það sem var sagt hér áðan, að Hof á Akureyri er hið eiginlega menningarhús landsbyggðarinnar. Það hefur sannað sig á fyrstu árunum sem það hefur verið rekið og ríkið á að koma myndarlega að rekstri þess að mínu viti eins og það ætlar að styrkja og styðja myndarlega við allt sem viðkemur Hörpu.