140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

Hof á Akureyri og fjárframlög úr ríkissjóði.

425. mál
[17:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins til upplýsingar voru á árunum 2003–2011 lagðir fjármunir í menningarhúsið á Akureyri, menningarhús í Vestmannaeyjum, menningarhús á Ísafirði, menningarhús í Skagafirði, menningarhús á Egilsstöðum og Sauðárkróki og menningarhúsið Tjarnarborg í Ólafsfirði eða í Fjallabyggð. Menningarhúsin eru því víða.

Sérstakir menningarsamningar eru gerðir fyrir Akureyrarbæ þannig að þangað koma einnig fjármunir til menningarstarfsemi frá ríkinu og voru fjárhæðir til menningarsamninga á landsbyggðinni hækkaðir umtalsvert í fjárlögum ársins 2011.

Almennt hefur ríkið lagt til 60% af byggingarkostnaði menningarhúsa á landsbyggðinni en þó með ákveðnu hámarki. Áætlað var að hlutur ríkisins í Hofi yrði, eins og fram kom í máli mínu áðan, 60% en hann endaði í 27% vegna þess hve mikið kostnaðurinn fór fram úr áætlun. Í samkomulaginu kom fram að hlutur ríkisins í kostnaði við byggingu hússins yrði 60% en þó aldrei meiri en 720 millj. kr. og var þá miðað við að heildarkostnaður við húsið yrði 1.200 millj. kr. á verðlagi ársins 2003. Síðan var sú upphæð hækkuð í fjáraukalögum vegna verðlagsuppbóta.

Hlutur ríkisins í Hörpu var áætlaður 54% en verður 34% vegna afskrifta. Aðkoma ríkis og borgar að því að klára byggingu Hörpu byggðist á því að framlög yrðu ekki meiri en þau sem ákveðið var við upphaf verkefnisins og það hefur staðist og svipað er með menningarhúsið Hof, sem ég tek undir að er ákaflega skemmtilegt hús og gaman að heimsækja og ég reyni að gera það í hvert skipti sem ég kem (Forseti hringir.) til Akureyrar.