140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir máli 608 á þskj. 958, um breytingar á lögum um gjaldeyrismál og fleira.

Laust upp úr kl. 16 í dag var boðað til aukafunda í þingflokkum á Alþingi og þar kynnt mál þetta sem flutt er af meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og var í framhaldinu til umfjöllunar á fundi efnahags- og viðskiptanefndar sem hófst á fimmta tímanum og lauk nú á sjötta tímanum í dag. Þar var samþykkt af meiri hluta nefndarinnar, fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna og hv. þm. Lilju Mósesdóttur, að standa að flutningi frumvarpsins hér, sem ætlunin er að gera að lögum með þremur umræðum í kvöld svo að ljúka megi afgreiðslu þess fyrir miðnætti.

Ástæður þess að málið ber að með þessum hætti eru þær að það hefur áhrif á markaði og verð fjármálaafurða á mörkuðum og því var nauðsynlegt að bíða með kynningu þess þar til markaðir höfðu lokast í dag og ljúka umfjöllun þess í þinginu fyrir opnun markaða á morgun.

Það sem málið lýtur að er einkum tvíþætt. Annars vegar er verið að bregðast við ákveðnum leka á þeim gjaldeyrishöftum sem hér hafa verið. Höft eru þeirrar náttúru að menn leita sífellt að smugum á þeim og heimilt hefur verið að flytja afborganir af skuldabréfum ásamt með vaxtatekjum úr landi. Það hefur gert það að verkum að talsverð ásókn hefur verið í skemmri bréf og sá vandi undið upp á sig með því að menn hafa hafið útgáfu slíkra afurða á markaði í nokkrum mæli. Hætta er á því að ef löggjafinn bregst ekki við og þéttir fyrir þessa glufu verði verulegt útstreymi sem grafi undan gengi íslensku krónunnar og efnahags- og verðlagsstöðugleika í landinu. Þannig eru undir í þessum mánuði einir 7 milljarðar og þannig áfram og vaxandi vandi sem við væri að eiga ef ekki verður brugðist við. Eðlilegt er að þeir sem hér eiga eignir og eru bundnir með þær innan haftanna geti flutt þá ávöxtun sem þeir hafa af eignunum, vaxtatekjur, úr landi. Hér er það bundið fast í lögunum að afborganir og verðbætur af afborgunum verði ekki fluttar úr landi, verðbætur á vexti má hins vegar flytja úr landi.

Þetta er annar þáttur málsins. Þegar við leiddum gjaldeyrishöftin og hin ítarlegu ákvæði þeirra hér í lög eftir að það var niðurstaða löggjafans að ófullnægjandi væri að slíkar takmarkanir á frelsi manna í viðskiptum væru einungis bundnar í reglum hjá Seðlabankanum, varð um leið ljóst að þingið yrði ávallt að vera því viðbúið að mæta þeirri hugkvæmni sem menn sýna á markaði og loka þeim leiðum til sniðgöngu sem menn kynnu að finna á lögunum með því að bregðast við og betrumbæta löggjöfina í ljósi þeirrar reynslu sem menn hafa af henni.

Í öðru lagi snýr þetta mál að þjóðhagsvarúðarráðstöfun sem lýtur að eignum þrotabúanna hér í landinu, og þá ekki síst þrotabúum hinna föllnu fjármálafyrirtækja. Þrátt fyrir að þar hafi gríðarlega mikil verðmæti tapast er það engu að síður svo að þau verðmæti sem eftir standa — og kröfuhafarnir í þessi þrotabú eiga, bæði í íslenskum krónum og í erlendum gjaldmiðlum — eru gríðarlega mikil í litlu efnahagskerfi eins og hinu íslenska. Fram að þessu hafa þessar eignir verið undanþegnar gjaldeyrishöftum. Þegar við lögfestum gjaldeyrishöftin hér í þinginu síðast kom það til nokkurrar umræðu í nefndinni hvort eðlilegt væri að þrotabúin hefðu þessa undanþágu, hvort ekki væri eðlilegt að kröfuhafar í þrotabú gömlu bankanna féllu undir sömu höft og allir aðrir aðilar í þessu litla efnahagslífi okkar, ekki síst í ljósi þess hversu gríðarlega miklar fjárhæðir eru annars vegar.

Nú er það tekið til bragðs að fella með frumvarpi þessu, ef Alþingi samþykkir það hér í kvöld, þessa undanþágu brott. Það er ekki gert vegna þess að ekki eigi að stuðla að því að erlendir kröfuhafar geti endurheimt eignir sínar og flutt þær í þá mynt sem þeir kjósa, heldur einfaldlega til að tryggja að það verði eins og aðrar gjaldeyrisyfirfærslur hluti af skipulögðu ferli og að sótt sé um það til Seðlabankans og að þar gildi almennar reglur sem þessir aðilar falli undir eins og aðrir.

Þetta er auðvitað ekkert síður hagsmunamál þeirra kröfuhafa sem í hlut eiga. Ef grafið væri undan stöðugleika á markaði, með verulegum tilflutningi á gríðarlegum fjárhæðum á stuttum tíma, mun það auðvitað bitna jafnharkalega á endurheimtum kröfuhafa eins og það mun bitna á þeim sem eru í þessu efnahagskerfi og þurfa að búa við það.

Þess vegna eru það heildarhagsmunir að með þessi mál sé farið með þessum hætti, en menn verða að hafa í huga nettóstöðuna í þessum þrotabúum þrátt fyrir öll þau verðmæti sem tapast hafa. Þegar við bara horfum á nettóstöðuna nemur hún yfir 500 milljörðum kr. og það jafngildir nærfellt þriðjungi af landsframleiðslu okkar. Þegar slíkar stærðir eru annars vegar og stöður er auðvitað, við þær þröngu aðstæður sem við búum við í íslensku efnahagslífi, nauðsynlegt að þær lúti sömu reglum og aðrar hreyfingar í því kerfi sem við höfum því miður orðið að búa við eftir að gjaldeyrishöftin komu.

Við lögðum hér í þinginu ríka áherslu á það, þegar við fjölluðum síðast um þessi mál, að mikilvægt væri að létta á gjaldeyrishöftunum. Það má sannarlega segja að þetta mál gengur í þveröfuga átt. Það gengur til þess að þétta í smugur og síðan af þjóðhagsvarúðarástæðum að grípa til þessara ráðstafana gagnvart þrotabúunum, fyrst og fremst vegna þeirrar endurfjármögnunaráhættu sem þær stóru upphæðir sem þar eru annars vegar skapa fyrir efnahagskerfið.

Það er ástæða til að upplýsa þingmenn um það að jafnframt hefur verið lagt fram minnisblað í efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp sem von er á inn í þingið á allra næstu dögum og lýtur að því að létta þau ákvæði í gjaldeyrishöftunum sem snúa að einstaklingum hér í landinu, venjulegu fólki og aðgangi þess að gjaldeyri og þeim reglum sem um þau mál öll gilda. Það verður ánægjulegt að geta tekið þátt í umræðu um það mál hér jafnvel þegar í næstu viku, að ég vona.

Ég vil fá að nota þetta tækifæri og þakka þingflokkum öllum fyrir góða samvinnu um að greiða þessum ákvörðunum leið hér í þinginu í kvöld. Eðli málsins samkvæmt eru sérstakar aðstæður sem kalla á það að með þessum hætti sé að verki staðið og út af fyrir sig eru þessi atriði auðvitað nokkuð sem hér hefur verið til umræðu áður, bæði það sem lýtur að undanþágu kröfuhafanna og hins vegar sú tilhneiging manna að reyna að ná fé í gegnum höftin með því að kaupa skemmri skuldabréf. Það eru heldur ekki nýjar fréttir. Við þekkjum það, bæði héðan úr þinginu og eins úr fjölmiðlaumfjöllun frá því fyrr í vetur, umræðuna um HFF-bréfin, HFF 14 meðal annars, þ.e. skuldabréf Íbúðalánasjóðs sem gengu kaupum og sölum nokkuð augljóslega í þessu skyni. En við það hefur sem sagt bæst að aðilar á markaði hafa farið að gefa út sambærileg skuldabréf að því er virðist jafnvel gagngert í þeim tilgangi að hjálpa mönnum við að flytja fé undir eða yfir gjaldeyrishöftin.