140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi álitaefni höfum við rætt við lögmann Seðlabankans á nefndarfundi okkar fyrr í dag og munum fá inn minnisblað sérstaklega vegna þess á milli umræðna. Það sjónarmið sem þar kom fram af hálfu bankans laut að því að vissulega fælu gjaldeyrishöftin í sér takmörkun á ráðstöfun eignarréttar. Hér er ekki verið að skerða eignarréttindi manna, heldur er verið að tryggja að það séu vextirnir sem heimilt sé að flytja úr landi, við núverandi neyðaraðstæður í gjaldeyrismálum okkar, en ekki sjálfar afborganirnar eða verðbætur af höfuðstólnum. Það felur ekki í sér skerðingu eignarréttarins, heldur takmarkanir á ráðstöfuninni sem helgast einfaldlega af því að þjóðarbúið á ekki gjaldeyri fyrir því útflæði sem óbreytt lög mundu framkalla.