140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að leysa landið úr gjaldmiðilskreppu þeirri sem það er í. Til þess er augljósust sú leið að ljúka farsællega aðildarviðræðum við Evrópusambandið, komast í það myntsamstarf sem ERM II er og brjóta okkur með þeim hætti leið út úr höftunum, því þjóð í höftum er ekki sjálfstæð þjóð, hún er ekki fullvalda þjóð og hún er ekki frjáls þjóð. Við erum í höftum.

Hvað varðar skuldbindingarnar vegna Icesave er ekki ætlunin með lögfestingu þessa frumvarps að efna ekki skuldbindingar gagnvart kröfuhöfum. Að sjálfsögðu er ætlunin að efna skuldbindingar gagnvart kröfuhöfum. En þeir verða ekki undanþegnir gjaldeyrishöftum. Það þýðir að vinna þarf með skipulögðum hætti yfir lengri tíma úr þeim stóru stöðum sem þeir eiga í íslensku efnahagslífi. Það er heldur til þess fallið að mínu mati að hámarka endurheimtur þeirra en hitt, því hér er fyrst og fremst verið að koma í veg fyrir að endurfjármögnunaráhættan leiði til einhverra alvarlegra skakkafalla í efnahagslífinu sem munu bitna á ríkissjóði og almenningi í landinu, en líka á stórum haghöfum eins og kröfuhafarnir eru í íslensku efnahagslífi.