140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi þrotabúin er tímaramminn í því einfaldlega þannig að nú fer að líða að því að á þetta fari að reyna og þess vegna eðlilegt að tekin sé afstaða til þess áður en að því kemur.

Hvað varðar það hvers vegna verið er að gera þetta núna tveimur dögum fyrir næsta gjalddaga er það ekki sá gjalddagi sem er megináhyggjuefnið í málinu. Megináhyggjuefnið er að það er hafin útgáfa sambærilegra verðbréfa og fyrirsjáanlegt að það geti undið mjög hratt upp á sig. Þar gætu verið undir mjög umtalsverðar fjárhæðir sem gætu grafið undan gengi krónunnar og þar með almennt undan atvinnu- og efnahagslífinu í landinu. Þess vegna er verið að setja undir þennan leka núna. Þó að menn hafi vitað af honum fyrr held ég að þessi útgáfa nýrra verðbréfa hafi (Forseti hringir.) gert útslagið um að það væri knýjandi nauðsyn að láta slag standa núna.