140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:29]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Aðeins örfá orð af minni hálfu. Ég vil byrja á að þakka meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem flytur þetta frumvarp og sömuleiðis þann skilning sem stjórnarandstaðan sýnir á nauðsyn þess að málið gangi hratt fram eftir að það er fram komið.

Það er rétt að fram komi að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur átt náið samráð við Seðlabankann undanfarna nokkra daga um undirbúning þessa máls. Sömuleiðis var fundað í morgun eins og hér hefur komið fram með formanni efnahags- og viðskiptanefndar til að fara yfir það hvernig vænlegast væri að bera málið fram. Ég hafði samband við þá forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna sem ég náði í fyrir hádegið til að eiga við þá samráð um hvað í vændum væri.

Varðandi hins vegar tímasetninguna er rétt að hafa í huga að hlé var á þingfundum í undangenginni viku, þar af leiðandi leiddi það svolítið af sjálfu út frá starfsáætlun Alþingis og aðstæðum hér að það væri vænlegast að horfa á þennan dag til að þetta mál fengi afgreiðslu. Þetta er að mínu mati nauðsynlegur liður í því eins og hér hefur einmitt borið á góma að hægt sé síðan að halda áfram skipulega áætlun um afnám gjaldeyrishafta og hafa það ferli skipulegt og yfirvegað. Hér er um mjög viðkvæmar markaðstengdar upplýsingar að ræða og þar af leiðandi ekki kostur að fjalla opinberlega um málið fyrr en mörkuðum hefur verið lokað og afgreiða það utan afgreiðslutíma. Hið sama gildir þar með að vissu leyti um undirbúning málsins, eðli málsins samkvæmt verður að halda mjög vel utan um það þegar mál af þessu tagi er á undirbúningsstigi að af því berist ekki fréttir.

Það er mikilvægt að á meðan gjaldeyrishöft eru við lýði sé öllum gert að fara eftir þeim. Það getur einmitt verið mikilvægur liður í því að losna síðan við þau að sumir komist ekki fram hjá þeim, ég tala nú ekki um ef menn eru að því beinlínis í því skyni að hagnast með óeðlilegum hætti á slíku eins og möguleiki er að hér sé á ferðinni, sérstaklega hvað varðar ásókn í uppkaup skuldabréfa rétt áður en þau koma á gjalddaga þannig að hjáleið finnist fram hjá þeirri stýringu sem höftunum er ætlað að vera.

Ég vil láta það koma fram að frumvarp um ýmsar breytingar, rýmkanir og lagfæringar á framkvæmd gjaldeyristakmarkananna er í vændum. Það gengur þá í hina áttina og í samræmi við það sem rætt hefur verið um að liðka til um þá framkvæmd. Það má segja að þetta kallist á að því leyti til að þeim mun betri stjórn sem hægt er að hafa á ferlinu og þeim mun betur sem hægt er að tryggja að áætlun um afnám hafta valdi ekki röskun og óstöðugleika í gengi, þeim mun ríkari séu möguleikarnir til þess að liðka framkvæmdina á hina hliðina. Að sjálfsögðu er mikilvægt, og ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að við getum haldið ótrauð áfram áætlun um afnám haftanna en það verður að leggja áherslu á að það verður að geta gerst með skipulögðum og stýrðum hætti og samkvæmt ferli sem felur í sér að við komumst áfram á þeirri leið án þess að glata þeim stöðugleika sem auðvitað hefur kostað okkur miklar fórnir að ná. Við megum ekki við frekari verðbólgusveiflum eða óstöðugleika í genginu. Þess vegna er það afar mikilvægur hluti þess að halda áfram á braut endurreisnar í atvinnulífinu að þessi hluti geti gengið fyrir sig án þess að kollsteypur verði.