140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi kannski ekki orða það beinlínis þannig að við ættum að tala krónuna upp. Það gæti misskilist þannig að við ætluðum beinlínis að reyna að hafa áhrif á gengið með því að tala það svona upp í hærri hæðir. En ég er sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að sjálfsögðu að vanda okkur í allri umfjöllun um þessi mál og reyna að leggja okkar af mörkum til að almennt traust skapist á efnahagslífi okkar og gjaldmiðlinum þar með talið. Ég hef oft áður, úr þessum ræðustóli og víðar á opinberum vettvangi, gagnrýnt ýmsa, og þar á meðal forvera í því embætti sem ég nú gegni hér lengra aftur í tíðina, fyrir að tala ógætilega um gjaldmiðilinn. Við getum auðvitað öll haft okkar skoðanir á því. En það er kannski sérstaklega mikilvægt að þeim sem er falið það verkefni að reyna að vera, bæði út á við og inn á við, talsmenn þess að við ætlum að byggja hér upp traust efnahagslíf, og þar með traustar undirstöður undir gjaldmiðil okkar, hver svo sem hann er — núna er hann krónan — vandi sig við það.

Almennt er þetta nátengt stóra viðfangsefninu sem Ísland hefur staðið frammi fyrir frá því haustið 2008 og reyndar missirin á undan, þ.e. að endurheimta traust því að það glataðist. Okkur hefur miðað í þeim efnum, en við þurfum að halda áfram að byggja þann orðstír okkar upp að við séum að ná tökum á okkar málum, við séum að komast út úr erfiðleikunum. Þetta snýst mjög mikið um traust, það er rétt, vegna þess að auðvitað þurfa að vera efnislegar innstæður fyrir því sem menn eru almennt að fjalla um. Menn þurfa að geta sýnt árangur í verki, en þetta snýst líka um hið huglæga sem er mat á því hvort hlutirnir séu í lagi og traust sé til staðar.

Ég er að vona að ég hafi svarað hv. þingmanni á þann veg að hann sé sæmilega sáttur við án þess kannski að ég hafi látið það eftir honum að segja mikið um það hvernig aðrir tala um þessi mál.