140. löggjafarþing — 68. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[18:39]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt við þá fjölskrúðugu umræðu sem er um sviðsmyndir eða möguleika í gjaldeyrismálum okkar. Þessi umræða geisar víða um lönd. Það er ekkert skrýtið og enn síður skrýtið þó að menn ræði það á Íslandi. Ég gagnrýni það ekki í sjálfu sér að menn fjalli um það og hafi á því ýmsar skoðanir, á því hef ég fullan skilning. Ég hef hins vegar sagt, og það stendur fyrir mína hönd, að mér finnst það liggja alveg ljóst fyrir að við hljótum að draga upp þessa möguleika og þessar sviðsmyndir í því ljósi að einn af þeim valkostum sé núverandi gjaldmiðill okkar og hann eftir atvikum eitthvað áfram, einfaldlega vegna þess að við höfum enga tryggingu fyrir einu eða neinu í því að annað verði í boði. Þá að sjálfsögðu verður af ábyrgð að nálgast hlutina þannig.

Við þurfum að finna jafnvægið í þessu, að ræða í sjálfu sér og eiga eðlileg skoðanaskipti um hvað sé vænlegast að gera í þessum efnum og hvaða möguleikar koma til greina, hvaða sviðsmyndir megi draga upp, en gera það alltaf af tillitssemi við þá stöðu sem við erum í og í ljósi þess að það er ekkert víst að möguleikar okkar verði aðrir en þeir, hvað sem mönnum finnst um það, að hafa þennan gjaldmiðil okkar eitthvað áfram.

Ég held að í raun sé umræðan kannski ekki alveg um réttan hlut, þ.e. hvað gjaldmiðillinn heitir að lokum, hvort hann er lítill eða stór, heldur á hún að vera um undirstöðu hans. Við eigum að einbeita okkur að því að horfa á undirstöðuna sem er agi og traust hagstjórn og verðmætasköpun sem stendur undir því sem við ætlum okkur að leggja fé í eða eyða. Þá er að mínu mati vandamálið að mestu leyti leyst og skiptir miklu minna máli en menn ætla hvort menn eru með sinn eigin litla gjaldmiðil eða tengja sig við einhverja aðra með einum eða öðrum hætti. Ef allar undirstöður eru í lagi leysist hitt að mestu (Forseti hringir.) leyti af sjálfu sér.