140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[22:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að velta vöngum yfir því hvers vegna málið er ekki flutt af hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem það heyrir undir. Það má vel vera að hann beri því við að erfitt sé að halda ríkisstjórnarfundi að kvöldi dags eða að forseti Íslands nái ekki að skrifa undir slíkt en hann hefði getað flutt það sem þingmaður og staðið keikur á bak við það. Í staðinn er hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar, Helga Hjörvar, att fram til að flytja þetta mál. Ég vildi gjarnan sjá hæstv. ráðherra viðstaddan umræðuna þó ekki væri meira.

Þann 15. desember sl. birtist frétt á visir.is sem segir: „Landið troðfullt af íslenskum krónum“. Þar komast menn að því að kröfuhafar Kaupþings, Landsbankans og Glitnis muni fá 450 milljarða kr. greidda. Áður hafði Seðlabankinn talað um jöklabréfin og að eitthvert óþreyjufullt innlent sparifé gæti verið á kreiki, um 500–600 milljarðar, en allt í einu er þetta komið upp fyrir þúsund milljarða og það er eins og Seðlabankinn komi af fjöllum.

Maður spyr sig: Er það virkilega svo? Getur verið að Seðlabankinn hafi ekki vitað af þessum krónum í þrotabúunum og slitastjórnunum og komi af fjöllum? Ég trúi því varla. Ef svo er þá er eitthvað alvarlegt að hjá Seðlabankanum.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvar er faglegi þátturinn í starfi hans? Hvernig ætlar Seðlabankinn að standa við þetta?

Ég hef verið að horfa á gengisvísitölurnar undanfarna daga, herra forseti, og þær hafa hækkað óhuggulega hratt sem skýrir það sem menn hafa verið að lýsa hérna, að verið er að flytja peninga til útlanda í stórum stíl, bæði afborganir af lánum innlendra fyrirtækja — það lá náttúrlega allt saman fyrir, herra forseti — og afborganir af skuldabréfum. Svo getur vel verið að hið venjulega sé komið í gang sem fylgir gjaldeyrishöftum, sem er svindl og prettir. Því miður kynntist ég því í æsku. Það hafði skaðleg áhrif á mig, herra forseti, þegar ég kynntist tvöföldum reikningum hjá innflytjendum og sömuleiðis hjá útflytjendum — reyndar kynntist ég því ekki sjálfur en ég kynnist innflytjendum sem voru með tvo reikninga fyrir sömu vöruna, sá hærri var ætlaður gjaldeyriseftirlitinu en hinn var greiddur. (Gripið fram í: … fyrnt?) Jú, það er örugglega fyrnt, það er óþarfi að nefna það.

Ég bendi á að í kringum gjaldeyrishöft myndast alltaf um leið svindl og prettir. Sumt er sniðganga, annað ekki. Útlendingar heyra ekki undir innlenda lögsögu fyrir það sem þeir gera í útlöndum. Þeir mega kaupa aflandskrónur, þeir mega kaupa gjaldeyri o.s.frv. Ég nefndi þetta allt saman þegar gjaldeyrishöftin voru sett og við sjálfstæðismenn bentum á það aftur og aftur að það væri skaðlegt og hættulegt að setja gjaldeyrishöft því að þau væru sjálfhverf að því leyti að þau byggju alltaf til meiri og meiri reglur og á endanum væri ríkið komið inn í íbúðina hjá manni og farið að skoða ofan í veskið manns.

Það frumvarp sem við ræðum í kvöld hefur væntanlega mikil áhrif á trú erlendra aðila á Íslandi. Ég verð að segja það hérna — þá er hæstv. ráðherra mættur, sem þetta mál heyrir undir, og það gleður mig. (Efnahrh.: Mín er ánægjan.) Hans er ánægjan, já, ætti nú ekki að vera það — en við höfum hægt og rólega verið að byggja upp ákveðna trú. Lánshæfismatið hefur aðallega batnað vegna þess að það hefur versnað hjá öðrum í Evrópu, Grikkjum o.fl. Engu að síður höfum við sýnt ákveðna tilhneigingu til bata og ég er ansi hræddur um að þetta verði ekki til að bæta það, en það munum við sjá í fyrramálið. Ég ætla ekki að spá meiru um hvað gerist með lánshæfismatið og annað slíkt.

Ég er nærri því viss um að innlendu markaðirnir munu í fyrramálið bregðast harkalega við ef þetta verður samþykkt í kvöld, sem allt stefnir í og stendur til, þannig að trú manna á spariskírteinum ríkissjóðs muni minnka. Auðvitað geta menn ekki farið neitt með peningana þannig að það er spurning hversu mikil áhrifin verða.

Ég vara við afleiðingum af þessu frumvarpi. Ég held að þetta sé hið versta mál. Það er mjög slæmt að menn skuli telja sig þurfa að samþykkja svona inngrip í gjaldeyrismálin og ég get engan veginn staðið að þessu þó að einhverjir stjórnarliðar séu tilbúnir til þess.