140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrst að þeim spurningum hv. þm. Péturs H. Blöndals sem lúta að því hvers vegna þingnefnd flytur málið. Það er ankannalegt að heyra þá athugasemd koma frá hv. þingmanni Pétri H. Blöndal sem hefur sjálfur talað mjög fyrir því að þingnefndir flytji lagafrumvarp á Alþingi og geri að lögum. Ástæða þess er einfaldlega sá tímarammi sem við erum stödd í. Nauðsynlegt er í allra síðasta lagi að birta lögin fyrir miðnætti annað kvöld á þriðjudegi. Eins og menn sjá erum við í 2. umr. farin að nálgast býsna mikið miðnættið og ef nú væri þriðjudagur væri orðið tvísýnt um hvort birta mætti lögin þó að næðist að samþykkja þau fyrir tilskilinn tíma. (Gripið fram í.) Sá sem mundi vilja hlutast til um að tefja þá umræðu gæti gert það. Þess vegna var ekki talið ráðlegt að bíða ríkisstjórnarfundar á morgun og leggja málið fram eftir kl. 4 á morgun heldur gera það þegar í dag. Best væri þá að nefndin flytti málið, eins og oftsinnis hefur verið gert til að greiða málum leið í gegnum þingið sem samstaða hefur verið um að mikilvægt væri að afgreiða með sérstökum hætti eins og er í þessu tilfelli. (Gripið fram í: … ráðherrann í mikilvægum málum.)

Undanþáguákvæði við banni eins og hér um ræðir eru ekki ævarandi, þau eru eðli málsins samkvæmt undanþáguákvæði og hin almenna regla er bann. Bannið er sett af þjóðhagsvarúðarástæðum. Það er sett til að skjóta stoðum undir efnahagslegt öryggi á Íslandi. Því var lýst yfir þegar við innleiðingu haftanna að allra leiða yrði leitað til að koma í veg fyrir að grafið yrði undan höftunum með sniðgöngu og breyttum aðstæðum mætt á hverjum tíma með breytingu á lögum. Báðar þær tillögur sem er að finna í þessu frumvarpi endurspegla þetta. Ég er þakklátur fyrir þá góðu samstöðu sem er um að fella burt undanþáguna gagnvart gömlu bönkunum. Hér hefur enginn ræðumanna dregið þá fyrirætlun í efa. [Kliður í þingsal.] Ég held að það sé til bóta ef við náum að flytja við 3. umr. afmörkun á þeirri aðgerð sem fullvissar hina erlendu kröfuhafa um að erlent lausafé á erlendum reikningum og erlent lausafé í Seðlabanka Íslands verði engu að síður til ráðstöfunar fyrir þá, en það sé góður skilningur og samstaða um það í þinginu að mikilvægt sé að fella brott þá undanþágu frá banninu sem þrotabú gömlu bankanna hafa haft, vegna þess að staðreyndin er sú að snjóhengjan hefur ekki minnkað eins og vonir stóðu til og að hér er um að ræða svo háar fjárhæðir að það er óvarlegt ekki aðeins fyrir hagsmuni Íslands heldur fyrir hina erlendu haghafa, kröfuhafana að hafa óskipulagt það víðtæka ferli sem flutningur þessara eigna úr landi er við þessar erfiðu aðstæður. Það sé þess vegna hagur allra málsaðila að flytja þennan hluta eigna þrotabúanna undir gjaldeyrishöftin og vinna úr þeim með skipulögðum hætti.

Hitt hafa menn efast meira um sem lýtur að því að fella burt undanþáguna er varðar greiðslu afborgana úr landi. Þar hafa menn aðallega haft áhyggjur af þegar útgefnum bréfum. Hér hefur heyrst það sjónarmið að þeir hagsmunir sem undir séu, 7 milljarðar tvisvar sinnum á ári í tilfelli HFF 14-flokksins, séu ekki nægilegir hagsmunir, almannahagsmunir til að fella brott þessa undanþágu þannig að hin almenna regla gildi um þau bréf eins og um alla aðra í málinu. En því miður er það svo að í okkar litla efnahagslífi nema þessir 7 milljarðar tvisvar sinnum á ári, þó að aðeins væri litið til HFF 14-flokksins en það er um fleiri skuldabréfaflokka að ræða og þó aðeins væri horft til skamms tíma eða næstu tveggja ára — þessar fjárhæðir hlaupa á tugum milljarða kr. Afgangur Íslands af vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd … (Gripið fram í: Er þetta ekki búið að liggja fyrir lengi?) Afgangur vöruskiptajöfnuðar okkar getur numið árlega einhvers staðar öðrum hvorum megin við 100 milljarða. Þá eigum við eftir að greiða úr landi allan fjármagnskostnað, og meðal annars allan kostnað við að hafa í gjaldeyrisvaraforða 1.081 milljarð kr., ég endurtek 1.081 milljarð kr. til að undirstrika að gjaldeyrisvaraforði Íslands er stór og öflugur. Hann nemur nærri tveimur þriðju hlutum af landsframleiðslu. Það sem hér er verið að gera er að styrkja þann stöðugleika sem er og þarf að vera á gjaldeyrismarkaðnum.

Þessar fjárhæðir, tugir milljarða, skipta einfaldlega verulega miklu máli um gjaldeyrisflæði á þeim tíma sem fram undan er vegna þess að þó að heildarútflutningstekjur okkar séu umtalsvert meiri þá nemur þessi fjárhæð, tugir milljarða kr., einfaldlega umtalsverðum hluta af því sem afgangs er þegar greitt hefur verið fyrir innfluttar vörur og þegar greiddur hefur verið fjármagnskostnaður úr landi. Sömuleiðis verður að horfa til hinna skuldabréfaflokkanna sem þegar eru útgefnir og til þess að alger óvissa er um hversu lengi þarf að hafa höft í landinu. Sumir hafa haldið því til haga að síðast voru þau við lýði í 65 ár. Þó að ég ætli ekki að hafa uppi spádóma um að þau verði hér svo lengi er algerlega ljóst að það mun taka umtalsvert lengri tíma að vinna úr aflandskrónuvandanum en bjartsýnustu menn vonuðu þegar höftin voru innleidd af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árið 2008.

Ég þakka fyrir umræðuna og vonast til að við getum tekið málið til lokaafgreiðslu við 3. umr. fyrir miðnætti.