140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því sem hv. þingmaður segir, annars vegar að málið sé svo mikilvægt og þetta séu slíkir almannahagsmunir að við þurfum að vinna þetta eins og raun ber vitni, hann blæs á allt annað en að þetta sé afskaplega stórt og mikilvægt mál sem varði almannahagsmuni. Á sama tíma segir hv. þingmaður að ástæðan fyrir því að hv. þingnefnd flytji málið en ekki hæstv. ráðherra sé vegna þess að það sé svo mikið mál fyrir hæstv. ríkisstjórn að funda um málið. Þetta er svolítið óheppilegt því að núna er fyrir landsdómi, m.a. fyrir tilstuðlan hv. þingmanns, einn ákæruliðurinn sá að ekki hafi verið haldnir ríkisstjórnarfundir um mikilvæg málefni. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er að gera grín eða hvað er í gangi, en heldur hv. þingmaður því fram í fullri alvöru að ríkisstjórnin hafi ekki getað haldið fund um þetta gríðarlega mikilvæga mál sem hann átti ekki orð yfir rétt áðan hve mikilvægt væri? Er hv. þingmaður að segja það? (Gripið fram í.) [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi bara heyrt einhverjar vanræksluyfirlýsingar í tengslum við það að ekki hafi verið haldnir ríkisstjórnarfundir. (Gripið fram í.) Nú hreyfðist meira að segja hæstv. velferðarráðherra og þarf þó talsvert til. Þetta er augljóslega mjög viðkvæmt mál. En ég hvet hv. þm. Helga Hjörvar til að segja hver sé raunveruleg ástæða fyrir því að hv. þingmaður flytur þetta mál nema hann sé að halda því fram að hér sé um vanrækslu að ræða hjá hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem getur ekki fundað um jafnmikilvægt mál og hér er rætt.