140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að við hljótum að geta verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er óskhyggja að geta losnað við höftin fyrir árslok 2013 án þess að það hafi nein áhrif á gengið. Það er það sem virðist blasa við manni í þeirri áætlun sem við höfum verið að horfa til að menn ætli sér einhvern tíma að komast í þá stöðu að geta smám saman losað um höftin án þess að það hafi nein áhrif á gengi íslensku krónunnar og jafnvel þannig að menn geti á sama tíma náð að styrkja hana.

Í ljósi þeirrar fjárhæðar sem við erum að tala um þá hljótum við að þurfa að fara að sjá í framkvæmd miklu framsæknari stefnu við afnám haftanna þar sem menn eru að bjóða upp, undir mjög þröngum skilyrðum, erlendan gjaldeyri þar sem menn verða einfaldlega, ef þeir ætla á annað borð að losna héðan út, að sætta sig við allt annað gengi en hið opinbera. (Forseti hringir.) Þannig verðum við einhvern veginn á skömmum tíma að þvinga þetta út. Við verðum að fara að tala um þessi gjaldeyrishaftamál eins og það blasir við okkur öllum sameiginlega. (Forseti hringir.) Þetta er sameiginlegt verkefni sem við verðum að fara að kljúfa og það þarf miklu grimmari og framsæknari stefnu í þessum málum.