140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er sannarlega sameiginlegt verkefni okkar að losna við höftin án þess að það leiði til verulegs falls á gengi íslensku krónunnar. Það er ekki síst mikilvægt nú vegna þess að fall á gengi krónunnar mun leiða af sér enn meiri verðóstöðugleika en við búum þegar við. Við búum við allt of mikla verðbólgu eins og staðan er núna og allt okkar kerfi, sem er verðtryggt fram og til baka, er þannig náttúrað að hæglega getur skapast vítahringur fyrir hagkerfið úr slíkri þróun.

Framsæknari stefnu við afnám haftanna, já en kannski er líka mikilvægt að draga úr óraunsæjum væntingum um að þetta megi gera á einni nóttu eða á morgun eins og sumir hafa viljað boða í þessari umræðu. Kannski þurfum við bara að ræða það hreinskilnislega að þetta mun taka allnokkurn tíma og vonandi mun það hvetja þá (Forseti hringir.) sem eiga stöður í þessari snjóhengju til að taka þátt í þeim útboðum og þeim fjárfestingarkostum (Forseti hringir.) sem þeim bjóðast vegna þess að það sé ekki útlit fyrir að þeir losni auðveldlega úr þessu fyrir árslok 2013.