140. löggjafarþing — 69. fundur,  12. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[23:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með það að við munum fá málið inn í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins á milli 2. og 3. umr. vegna þess að þetta mál er vanreifað og mörgum spurningum er ósvarað. Ég vonast til þess að við munum fá skýrari svör varðandi ýmis álitamál sem tengjast þessu mikilvæga máli.

Ég vil hins vegar geta þess að í morgun samþykktum við framsóknarmenn að við mundum afgreiða þetta mál frá þinginu þó að við séum ekki stuðningsmenn þess. Vonandi munum við ná að gera breytingar á málinu þannig að það verði alla vega sem skást útbúið. Hér er um mál að ræða sem snertir heimilin og atvinnulífið í landinu og mikilvægt að við förum að ná einhverri markvissri stefnu í því að aflétta þessum gjaldeyrishöftum svo ömurleg sem þau eru fyrir heimilin og fyrirtækin. Við munum þess vegna, í ljósi þess að málið á eftir að ganga aftur til nefndar, sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.