140. löggjafarþing — 70. fundur,  13. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[00:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu á þskj. 965 sem ég flyt hér við 3. umr. og lýtur að því að taka upp ákvæði 3. gr. í þeim lögum sem við höfum til umfjöllunar. Hún lýtur að því að skýra skilmerkilega hvaða þætti af eignum hinna föllnu banka er ekki ætlunin að taka undir gjaldeyrishöftin og var aldrei ætlunin að gera með frumvarpinu heldur var ætlunin að undanskilja þá þætti í þeim reglum sem Seðlabankinn gæfi út á grundvelli þeirra.

Til að taka af öll tvímæli er þessi breytingartillaga flutt og þessi áskilnaður hafður í lögunum sjálfum til að vekja ekki óþarfaáhyggjur erlendra aðila sem eiga kröfur á hina föllnu banka. Þessar undanþágur lúta að reiðufé sem er á bankareikningum erlendis í erlendri mynt og að eftir sem áður verði heimilt að nýta það til greiðslu til erlendra aðila enda hefur það enga viðkomu á Íslandi eða í íslenskum efnahag. Sömuleiðis að innstæður þessara aðila í erlendri mynt í Seðlabanka Íslands verði þeim að sjálfsögðu til reiðu enda hafa þær ekki áhrif á aflandskrónurnar eða snjóhengjuna eða þau verkefni sem við er að fást innan lands.

Hér var spurt um umfang þessa við 2. umr. Umfangið á innstæðum aðila í Seðlabanka Íslands er liðlega 294 milljarðar í erlendum innstæðum sem þessi undanþága nær til. Hins vegar kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að erlendar eignir búanna losa 1.700 milljarða kr., 1.700 milljarða íslenskra kr. eða sem jafngildir því og að vænta megi þess að um fimmtungur þess sé reiðufé á erlendum bankareikningum. Sú stærðargráða sem sá þáttur undanþágunnar nær til gæti þá verið um 350 milljarðar .

Þessi undanþága nær til þeirra innstæðna sem eru á þessum reikningum að kvöldi 12. mars, sem er núna síðastliðins, en áframhaldandi ákvæði lúta að því erlenda reiðufé sem skapast mun á reikningum og heimildum fyrir Seðlabankann til að setja frekari reglur um framkvæmd þessarar undanþágu. Það helgast meðal annars af þeim skamma tíma sem var til að formgera hana í breytingartillögu við lagafrumvarpið.

Ég vildi enn fremur nota tækifærið og svara fyrirspurnum sem fram komu varðandi gjaldeyrisforðann, bæði til að svara þeim og líka til að undirstrika að þó að efnt sé til kvöldfundar á Alþingi til að styrkja gjaldeyrishöftin er það ekki vegna þess að hér sé að skapast mikill órói á gjaldeyrismarkaðnum. Seðlabankinn hefur 1.081 milljarð í gjaldeyrisvarasjóði og er í góðum færum til þess að bregðast við þeim hræringum sem kunna að vera á honum. Af því eru 600 milljarðar hreinn forði sem kallað er, en hreinn forði er brúttóforðinn mínus þær skammtímaskuldir sem við höfum á honum. Þegar litið er hins vegar líka til langtímaskuldanna er gjaldeyrisforðinn náttúrlega einhvers staðar í kringum núllið, en það eru skuldbindingar sem ekki þarf að standa skil á nema á löngum tíma. Ég vildi að þetta kæmi fram vegna þess að spurst var fyrir um þetta við umræðuna.

Ég mæli með því við þingið að breytingartillagan verði samþykkt og frumvarpið svo breytt gert að lögum á þessum fundi.