140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í gærkvöldi sátum við lengi í þingsal og enduðum á því að samþykkja lög um hert gjaldeyrishöft. Grundvallarforsenda þeirrar niðurstöðu Alþingis er væntanlega sú að með því sé verið að koma í veg fyrir óæskilega veikingu íslensku krónunnar, enda skiptir það miklu máli og má taka undir að hægt sé að verja gengi gjaldmiðilsins þannig að verðlag hækki ekki um of, lán heimilanna hækki ekki o.s.frv. Þess vegna er ástæða fyrir okkur þingmenn að hafa nokkrar áhyggjur af því þegar margir af helstu ráðamönnum þjóðarinnar tala þannig um íslensku krónuna að úr því má lesa mjög skýr skilaboð um að ekki verði hægt að nota íslenska krónu til framtíðar. Á ég hér meðal annars við yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra.

Vissulega er ástæða til að við förum vel og vandlega yfir alla þá kosti sem Íslendingum standa til boða í stjórn peningamála, meðal annars þarf að fara vel í gegnum það hvernig og hvaða breytingar þarf að gera á stjórn peningamála grundvölluðum á krónu ef við ætlum að búa áfram við þá mynt. Ég tel að það séu sterkir kostir og rök með slíku þótt jafnframt séu augljós þau vandkvæði sem henni tengjast.

Sama gildir um upptöku annarra mynta, það er nauðsynlegt að fara í gegnum alla þá umræðu. En rétt eins og við sáum ástæðu til að grípa til lagasetningar í gærkvöldi vegna þess að menn höfðu áhyggjur af því að gengi íslensku krónunnar mundi veikjast yrði það ekki gert, er ástæða fyrir þingið að hafa áhyggjur af endurteknum yfirlýsingum ráðamanna þjóðarinnar af því að ekki verði hægt að byggja á íslensku krónunni. (Forseti hringir.) Þær yfirlýsingar eru til þess fallnar að veikja gengi krónunnar á sama tíma og barist er fyrir því að halda því uppi.