140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Í allsherjar- og menntamálanefnd höfum við undanfarið rætt ýmis mál, meðal annars málefni sem tengjast málefnum háskóla á Íslandi. Það er alveg ljóst að hugur margra innan nefndarinnar stendur til þess að gerðar verði verulegar breytingar á háskólaumhverfinu. Fyrir liggja mjög margar skýrslur sem meðal annars hafa verið unnar af erlendum sérfræðingum á síðastliðnum árum þar sem bent er á að við þurfum markvisst að sameina háskóla, reka háskóla á hagkvæmari hátt til að byggja upp enn öflugri rannsóknarstarfsemi á hinu ýmsu sviðum.

Við áttum okkur á því að framlög til háskóla hafa aukist á umliðnum árum um kannski 50–60%. Fyrir nokkrum árum voru framlög til háskóla 0,8% af landsframleiðslu en nú eru þau komin upp í 1,2%. Það er hins vegar ekki nóg miðað við þau lönd sem við berum okkur alla jafnan saman við, til dæmis eru framlög til háskólamála á hinum Norðurlöndunum þrefalt á við það sem er á Íslandi í dag. Ég geri ekki ráð fyrir því að ríkisvaldið sé reiðubúið til að lýsa því yfir að framlögin muni aukast sem því nemur. Þess vegna verður að leita allra leiða og taka pólitíska ákvörðun um að athuga sameiningar á háskólum eða að fara aðrar leiðir eins og þá að gera allar háskólastofnanir á Íslandi, hvort sem þær eru í opinberri eigu eða einkaeigu, að sjálfseignarstofnunum þannig að auðveldara verði að reka skólana saman og fara í hagkvæmar sameiningar vítt og breitt um landið. Ég tel það augljóst og við verðum að skoða það þrátt fyrir að um ár sé til kosninga. Þetta getur verið viðkvæmt mál, meðal annars í ljósi þess að það kallar á skólagjaldaumræðu en það er umræða sem við verðum að taka. Við verðum að átta okkur á því að við getum ekki aukið framlög til háskólanna þrefalt á við það sem það er í dag. Það þarf með einhverjum hætti að auka framlegð að nýju til háskólanna. Það gerum við (Forseti hringir.) með því að ræða aukin framlög ríkisins en ekki síður með því að gera algera uppstokkun á háskólakerfinu, meðal annars með tilliti til skólagjalda.