140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Um ræðu síðasta hv. ræðumanns vil ég segja þetta: Ég held að þetta hafi verið ein ósmekklegasta ef ekki sú ósmekklegasta ræða sem hefur verið flutt á Alþingi. (HHj: Það eru stór orð.) Ég leyfi mér að taka svo stórt upp í mig vegna þess að þarna fór þessi hv. þingmaður, sem oft hefur farið yfir strikið, algerlega yfir strikið.

Ég ætlaði að vekja athygli á því sem upplýst var í umræðunni um breytingu á lögum um gjaldeyrishöft í gær, en þá var hv. þm. Helgi Hjörvar spurður um hvers vegna hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði ekki flutt það mál sem varðað getur þjóðarhag, tugi, ef ekki hundruð milljarða og grundvöll sjálfrar myntarinnar, en komið málinu þess í stað yfir á hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði skýringuna vera þá að ekki hefði verið hægt að fara með málið fyrir ríkisstjórnarfund í morgun vegna þess að þá hefði ekki gefist nægur tími til að klára löggjöfina. Það er nokkuð merkilegt vegna þess að í þeim réttarhöldum sem hv. þm. Björn Valur Gíslason vék að áðan er sakborningurinn meðal annars ákærður fyrir, með leyfi forseta:

„[…] að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.“

Síðar í ákærunni er sagt:

„Forsætisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.“

Það var upplýst í umræðunni í gær að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra taldi ekki ástæðu til að halda ráðherrafund eða upplýsa ríkisstjórn Íslands (Gripið fram í.) um það frumvarp sem varð að lögum í gær. Það skyldi þó ekki vera að einhvern verði tíma felldur dómur, þótt ekki væri nema sögunnar, um að þarna hafi verið um vítaverða (Gripið fram í.) vanrækslu að ræða.