140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það eru vissulega mörg mál í hv. Alþingi sem mættu vera í snarpari meðferð og með hraðara gengi. Ég ætla að nefna tvö. Frá í haust er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd tillaga um úttekt á Schengen, kostnað og tekjur, auðvitað með það fyrir augum að nánast fyrir fram liggur fyrir að við eigum ekkert erindi í Schengen. Það kostar okkur allt of mikið fjárhagslega, það kostar okkur líka mikið varðandi breytingar á þjóðfélaginu. 100 erlendir gestir sem leggja undir sig eitt heimili munu breyta heimilinu og við eigum að verja hefð íslenska heimilisins. Þessu þarf að fylgja eftir. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, er í salnum og ég hvet til þess að tekið sé á þessu máli og það komi til vinnslu og atkvæða.

Hæstv. innanríkisráðherra lýsti yfir stuðningi við tillöguna og ástæða er til að fara ofan í saumana á þessu máli. Við eigum ekki að horfa upp á það að íslenska samfélaginu sé umbylt þegar við höfum ekki einu sinni neitt út úr því nema kostnað.

Hitt sem ég vil nefna er þingsályktunartillaga frá öllum þingmönnum Suðurkjördæmis um útboð á nýrri Vestmannaeyjaferju nú þegar. Núna liggur fyrir samkvæmt tillögum og hugmyndum Siglingastofnunar að Landeyjahöfn ætti að vera komin í eðlilegt horf, miðað við eðlileg frávik, á miðju ári 2014 og þá er ekki eftir neinu að bíða. Það þarf að bjóða strax út, alútboð er hugmynd þingmanna Suðurlands, allra, og þá væri hægt að skila skipi til að nota um leið og höfnin er tilbúin. Ég hvet til þess að (Forseti hringir.) menn skerpi nú verklagið og gangi til þess að klára málið.