140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á mál sem nokkrir þingmenn hafa reifað í pontu í dag og það er gjaldmiðillinn. Mörg okkar eru reiðubúin að hlusta á ólík sjónarmið í því hvaða gjaldmiðil Íslendingar eiga að hafa í framtíðinni, hvort sem það er krónan eða einhver annar gjaldmiðill, en til þess þurfum við að ræða hlutina en ekki ákveða með einhverri einræðu fyrir fram að við eigum að henda gjaldmiðli okkar sem við þekkjum fyrir einhvern annan. (Gripið fram í.) Það er því miður það sem hæstv. ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar, margir hverjir, (Utanrrh.: Það voruð þið sem …) hafa talað um (Gripið fram í.) árum saman og núna dögum og vikum saman í þinginu og fjölmiðlum. Jú, það er rétt sem hæstv. utanríkisráðherra kallar hér fram í, framsóknarmenn hafa þorað að ræða kanadadollar, norska krónu. Eigum við að nefna eitthvað fleira, (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra? Það er með ólíkindum (Gripið fram í: … krónuna.) að hæstv. ráðherra skuli enn og aftur gjamma fram í þegar við ræðum um gjaldmiðil Íslands á meðan forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar (Gripið fram í: … krónuna.) talar niður gjaldmiðilinn með þeirri ótrúlegu yfirlýsingu sem ráðherrann [Kliður í þingsal.] gaf á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) fyrir skömmu. Til upplýsingar…

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Til upplýsingar fyrir hæstv. utanríkisráðherra vil ég nefna að um daginn voru hér í heimsókn í þinginu norskir þingmenn, þar á meðal aðstoðarfjármálaráðherra Noregs. Hvað sagði sá ágæti maður þegar hann var spurður að því hvað gerðist ef hann mundi standa í ræðustól í þingi eða í fjölmiðlum og segja: Norska krónan er ónýt? (Gripið fram í: Nei.) Hvernig færi fyrir þeim manni? [Frammíköll í þingsal.] Hann yrði rekinn. (Gripið fram í: Hvað sem þeir segja …) Þingmaðurinn sagði að hann yrði rekinn, það er nákvæmlega það sem hann sagði. Og það er að sjálfsögðu það sem á að gera við núverandi ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra, það þarf að koma þeim frá sem tala svona niður íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf, eins og þessi ágæti ráðherra gerir og þetta ágæta fólk. Það þarf að koma því frá sem fyrst áður en skaðinn verður meiri. Skaðinn er mikill og hann getur orðið miklu meiri ef svo heldur áfram. (Forseti hringir.) [Háreysti í þingsal.]