140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður næst á undan mér hætti við að koma inn á. Hún kallaði það uppákomu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun. Þar mættu þrír fulltrúar frá stjórnlagaráði og sögðu okkur frá þeirri vinnu sem þeir unnu yfir helgina. Þar á eftir spurði ég hvort þau hefðu einhverjar hugmyndir um hvernig við ættum að halda áfram með málið, spurði bara sisona, og fékk svar frá einum gestinum (Gripið fram í.) þar sem hann lýsti sinni persónulegu skoðun, og ítrekaði tvisvar sinnum. Það sem gerist næst er það að út af lokuðum fundi, vinnufundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, kemur fésbókaruppfærsla frá einum þingmanninum sem þar sat inni þar sem sagt er að stjórnlagaráð eða eitthvað sé á harðahlaupum (VigH: Hafðu rétt eftir.) frá þjóðaratkvæðagreiðslu. (VigH: Hafðu rétt eftir. Þetta er rangt.)

Virðulegi forseti. Ég tel algjörlega ólíðandi fyrir gesti sem koma á fund hjá nefnd á Alþingi, að máli þeirra, þar sem þeir taka sérstaklega fram að þeir segi sína persónulegu skoðun, (Gripið fram í.) sé útvarpað á fésbók áður en fólk kemst út af fundinum. (Gripið fram í.) Ég tel þetta algjörlega ólíðandi (Gripið fram í.) enda sleit ég fundi vegna þess að það var ljóst að ekki ríkti traust á milli þeirra sem sátu eftir á fundinum. (Gripið fram í: Það er nú ekki gott …) (Forseti hringir.) [Kliður í þingsal.]