140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

netfærsla af nefndarfundi.

[14:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er einkennilegt að ég fái ekki að bera af mér sakir í þessu máli vegna þess að hér hef ég ekki brotið fundarsköp. Í 2. málslið 19. gr. þingskapa segir, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi, …“

Það sem ég setti inn á Facebook-síðu mína kl. 10:10 í morgun var þetta, með leyfi forseta:

„Stórfrétt. Nú er eiginlega endanlega verið að slá út þjóðaratkvæðagreiðslu um skýrslu stjórnlagaráðs samhliða forsetakosningum.“

Ekkert nafn, ekkert gestanafn, enginn nefndarmaður nefndur. Þess vegna, frú forseti, neita ég því að ég hafi brotið þingsköp og ég mótmæli því ofbeldi sem ég hef verið beitt hér á þingi. Í fyrsta lagi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun þar sem fundi var tafarlaust slitið í nefndinni eftir að þetta kom upp og svo núna þegar gera þurfti fundarhlé í hálftíma til að leita þess réttar míns að ég gæti borið af mér sakir. Þetta er óstjórn, frú forseti, og lýsir kannski því í hvaða stöðu Alþingi Íslendinga er.